Útlit er fyrir að verið sé að fara að taka upp tvær kvikmyndir í Alþjóðlegu geimstöðinni í október.
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna tilkynnti í fyrra að til stæði að SpaceX myndi koma Tom Cruise og leikstjóranum Doug Liman út í geim. Þeir ætluðu að taka upp kvikmynd um borð í geimstöðinni.
Sjá einnig: Yfirmaður NASA til í að Cruise taki upp kvikmynd í geimstöðinni
Markmiðið væri að hluta til að gera ungt fólk spennt fyrir geimferðum og hvetja þau til að ganga til liðs við nýja kynslóð geimfara.

Skömmu seinna tilkynntu Rússar að þei ætluðu einnig að taka upp kvikmynd í geimstöðinni og hófst leikaraval fyrir þá mynd í vetur.
Samkvæmt frétt Guardian voru skilyrði fyrir hlutverkið að vera 25 til 40 ára gömul kona, á milli 50 og 70 kíló að þyngd og með ekki meira en 112 sentímetra í ummál brjóstkassa.
Hún þurfti einnig að geta hlaupið kílómetra á innan við þremur og hálfri mínútu, að geta synt 800 metra á inna við tuttugu mínútum og að geta stungið sér af þriggja metra háu bretti með góðri tækni.
Rússar tilkynntu svo í síðasta mánuði að leikkonan Júlía Peresild myndi fara til geimstöðvarinnar með leikstjóranum Klim Sjipenkó. Bæði hófu þau að geimfaraþjálfun í síðasta mánuði.

Lítið sem ekkert er vitað um söguþráð myndarinnar, annað en myndin eigi að gerast í náinni framtíð og fjalla um óvana persónu sem endar út í geimi.
Svipaða sögu er að segja af söguþræði kvikmyndar Cruise og Liman. Eins og áður segir, stendur einnig til að senda þá til geimstöðvarinnar í október en dagsetning hefur ekki verið ákveðin enn.
Vel heppnuðu samstarfi lokið
Geimfarar og geimvísindamenn Rússlands og Bandaríkjanna hafa í áratugi átt í góðu samstarfi og það þrátt fyrir að samskipti ríkjanna hefið versnað töluvert á því tímabili. Þau samskipti hafa sjaldan verið verri en nú og er samvinnu ríkjanna í geimnum að mestu að ljúka á næstu árum.
Rússar hafa gefið út að þeir ætli að hætta að taka þátt í starfsemi geimstöðvarinnar árið 2025 og stefna að smíði eigin geimstöðvar fyrir árið 2030. Þar að auki ætla þeir að byggja rannsóknarstöð á yfirborði tunglsins, í samstarfi við Kínverja.
Auk Rússlands og Bandaríkjanna hafa sextán önnur ríki komið að geimstöðinni, sem var skotið á loft árið 1998. Hún hefur verið heimili vel á þriðja hundrað geimfara frá nítján ríkjum frá árinu 2000, þegar fyrstu geimfararnir komu sér þar fyrir.
Síðastliðinn október greiddu Bandaríkin fyrir sína síðustu geimferð með Souyz eldflaugum Rússa. Bandaríkjamenn höfðu þurft að greiða Rússum fyrir pláss í eldflugunum eftir að geimskutlurnar gömlu voru teknar úr notkun árið 2011. Nú eru Bandaríkjamenn byrjaðir að skjóta eigin geimförum aftur út í geim frá Bandaríkjunum og Rússar hafa verið að leita nýrra tekjustofna.
Samkvæmt frétt NBC hafa Rússar leitað til auðugra ferðamanna sem vilja komast út í geim. Í desember verður tveimur japönskum auðjöfrum skotið út í geim frá Baikonur í Kasakstan.
Þeirra á meðal er Yusaku Meazawa, sem hefur einnig greitt SpaceX fyrir að fara í geimferð kringum tunglið. Áætlað er að skjóta því geimfari á loft árið 2023 og stendur til að notast við Starship-geimfarið, sem NASA valdi nýverið til að lenda á tunglinu í Artemis-áætluninni.