Innlent

Kvartað undan bróður Ás­laugar til yfir­kjör­stjórnar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á í harðri baráttu við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á í harðri baráttu við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Kvartað hefur verið til yfir­kjör­stjórnar Sjálf­stæðis­flokksins vegna próf­kjörs flokksins í Reykja­vík vegna gruns um að bróðir dóms­mála­ráð­herra hafi nýtt sér beinan að­gang að fé­laga­skrá flokksins í próf­kjörs­bar­áttunni sem nú stendur yfir í Reykja­vík.

Sigurður Helgi Birgis­son, sem er um­boðs­maður Guð­laugs í próf­kjörinu, sendi at­huga­semdirnar inn til yfirkjörstjórnar í dag. Hann segir í sam­tali við Vísi að honum hafi borist á­bendingar um að fólk í flokknum væri að fá skrýtin sím­töl frá fram­boði Ás­laugar þar sem verið væri að bjóða fólk vel­komið í flokkinn.

Engin leið hafi verið fyrir fram­boðið að vita hverjir væru ný­skráðir í flokkinn af kjör­skrá sem flokkurinn deilir út til fram­bjóð­enda í próf­kjörinu. Upplýsingar um nýskráningar voru sendar á frambjóðendurna síðasta mánudag en Sigurður segir að ábendingarnar hafi borist honum mun fyrr.

Á félagskrá flokksins eru einnig per­sónu­upp­lýsingar eins og kenni­tala, net­fang og heimilis­fang flokks­manna.

„Við höfum fengið stað­fest frá starfs­manni á skrif­stofu flokksins að Magnús Sigur­björns­son var með að­gang að flokks­skrá flokksins,“ segir Sigurður Helgi við Vísi. Magnús er bróðir Ás­laugar en hann var kosninga­stjóri hennar til að byrja með í próf­kjörs­bar­áttunni.

Sjá einnig: Lykilatriði að notendur samfélagsmiðla viti og samþykki að flokkarnir séu að vinna með upplýsingar.

Búið að loka aðganginum

Sigurður segir að hann hafi fengið þær skýringar á að­gangi Magnúsar að hann hafi verið fenginn til að búa til auð­velda leið fyrir flokkinn til að senda út póst á alla fé­lags­menn í einu í gegn um for­ritið Mailchimp.

„Verandi lög­fræðingur veit ég það að vinnslu­aðili með per­sónu­upp­lýsingar má ekki gefa neinum að­gang að þeim nema það sé nauð­syn­legt og þegar vinnslan er búin þá á að loka þeim að­gangi hið snarasta,“ segir Sigurður Helgi. Hann segist vita til þess að búið sé að loka að­gangi Magnúsar að fé­laga­skrá flokksins.

Uppfært kl. 17:00:

Magnús Sigur­björns­son segir ekkert til í á­sökunum um að hann hafi nýtt sér að­gang að fé­laga­tali flokksins fyrir fram­boð Ás­laugar systur sinnar. Hann hafi ekki haft að­gang að tölvu­kerfinu frá því að hann var starfs­maður flokksins fyrr á þessu ári en vildi ekki svara því hve­nær hafi verið lokað fyrir aðgang hans. Yfir­kjör­stjórn gæti hins vegar stað­fest hvenær hann hefði skráð sig inn í kerfið.

Uppfært kl. 17:20:

Yfirkjörstjórn fundar

Vísir náði tali af Kristínu Edwald, formanni yfirkjörstjórnar flokksins, sem staðfesti að kvörtunin hefði borist. Hún vildi ekki segja neitt annað um málið því yfirkjörstjórnin færi nú yfir það á fundi.

Guðlaugur sagður nota félagaskrá 2006

Svipað mál kom upp í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2006 þegar Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi starfsmaður flokksins, hélt því fram að Guðlaugur hefði einn haft aðgang að félagaskrá flokksins í prófkjörinu.

Guðlaugur náði þá öðru sæti í prófkjörinu.

Sjá einnig: Guðlaugur einn með nýja skrá.


Tengdar fréttir

Ræðst fram­tíð Sjálf­stæðis­flokksins á Insta­gram?

Hörð bar­átta tveggja ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins um að verða leið­togar flokksins á þingi fyrir Reyk­víkinga hefur ó­lík­lega farið fram hjá mörgum. Báðir hafa aug­lýst sig ágætlega í að­draganda próf­kjörs flokksins, sem fer fram á föstu­dag og laugar­dag, raunar svo mikið að dósent í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands finnst aug­lýsinga­flóðinu svipa til þess sem tíðkaðist rétt fyrir hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×