Körfubolti

Njarð­vík í kjör­stöðu í þrífram­lengdum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Njarðvík er einum sigri frá sæti í efstu deild.
Njarðvík er einum sigri frá sæti í efstu deild. Vísir/Bára Dröfn

Njarðvík vann magnaðan tveggja stiga sigur á Grindavík í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna í körfubolta. Lokatölur 94-92 í leik sem var þríframlengdur.

Njarðvík vann fyrsta leik liðanna mjög sannfærandi en leiknum lauk með 20 stiga sigri heimakvenna, 69-49. Annað var upp á teningnum í kvöld og leikurinn stál í stál frá fyrstu mínútu.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 69-69 og því þurfti að framlengja. Þar skoruðu bæði lið 7 stig, staðan því jöfn 76-76 og því þurfti að framlengja aftur. Bæði lið skoruðu 12 stig í annarri framlengingu leiksins og staðan þá jöfn 88-88.

Í þriðju framlengingu höfðu Njarðvíkingar betur en það var augljóst að nær öll orka var úr báðum liðum. Njarðvík skoraði sex stig gegn fjórum hjá Grindavík og vann leikinn því naumlega 94-92.

Njarðvíkingar eru nú aðeins einum sigri frá sæti í efstu deild kvenna á næstu leiktíð.

Chelsea Nacole Jennings var stigahæst hjá Njarðvík með 44 stig. Þar á eftir kom Kamilla Sól Viktorsdóttir. Hekla Eik Nökkvadóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×