Fótbolti

Dort­mund neitaði til­boði Man Utd í Sancho

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester United þarf að bæta tilboð sitt í Jadon Sancho.
Manchester United þarf að bæta tilboð sitt í Jadon Sancho. EPA-EFE/MARTIN MEISSNER

Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund hafnaði í kvöld 67 milljón punda tilboði enska félagsins Manchester United í enska vængmanninn Jadon Sancho. Þýska félagið vill 77.5 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Talið er að Dortmund ætli ekki að leyfa norska framherjanum Erling Braut Håland að fara í sumar en félagið ku ekki ætla að standa í vegi fyrir félagaskiptum Sancho til Man United. Það er ef enska félagið borgar uppsett verð.

Man United hefur nú þegar samið við Sancho um kaup og kjör. Enski landsliðsmaðurinn mun fá fimm ára samning að virði 350 þúsund punda á viku. Nú þarf Man Utd aðeins að ná samkomulagi við Dortmund til að bæta Sancho við leikmannahóp sinn.

Hinn 21 árs gamli Sancho átti erfitt uppdráttar í upphafi tímabils en þegar leið á veturinn fann Sancho sig betur og betur. Á endanum skoraði hann 16 mörk og lagði upp 20 til viðbótar í aðeins 38 leikjum.

Sancho er í leikmannahópi enska landsliðsins sem mætir Króatíu þann 13. júní fyrsta leik D-riðils á Evrópumótinu í knattspyrnu.

The Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×