Víkingur vann öruggan 2-0 sigur á FH þökk sé mörkum Nikolaj Andreas Hansen. Eitt í hvorum hálfleik. Með sigrinum lyftu Víkingar sér á topp Pepsi Max deildarinnar.
Stjarnan kom verulega á óvart er liðið kom til baka og lagði Íslandsmeistara Vals 2-1 í Garðabænum. Miðvörðurinn Rasmus Christiansen kom Val yfir þegar tæpur hálftími var liðinn en Stjarnan svaraði með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik.
Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin og Heiðar Ægisson kom Stjörnunni yfir. Vinstri bakvörðurinn Tristan Freyr Ingólfsson lagði upp bæði mörkin.
Þá vann Breiðablik þægilegan 2-0 sigur á Fylki eftir rólegan fyrri hálfleik. Árni Vilhjálmsson skoraði fyrra markið og Viktor Karl Einarsson það síðara.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.