Fótbolti

Neymar nálgast Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar hér marki á Copa America.
Neymar fagnar hér marki á Copa America. AP/Eraldo Peres

Neymar og Richarlison voru báðir á skotskónum í nótt þegar Brasilíu vann sinn annan leik í röð í Suðurameríkukeppninni í fótbolta.

Brasilía vann 4-0 sigur á Perú og hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni og það með markatölunni 7-0. Brasilía vann 3-0 sigur á Venesúela í fyrsta leiknum.

Alex Sandro skoraði fyrsta markið á tólftu mínútu og það var eina mark fyrri hálfleiksins.

Neymar kom brasilíska liðinu í 2-0 á 68. mínútu eftir sendingu frá Fred áður mörk frá varamönnunum Everton Ribeiro og Richarlison innsigluðu sannfærandi sigur. Richarlison átti líka stoðsendinguna á Ribeiro.

Neymar var þarna að skora sit 68. mark fyrir Brasilíu og vantar nú „bara“ níu mörk til að ná markameti Pele.

Pele skrifaði það sjálfur á samfélagsmiðla að hann vonaðist til þess að Neymar myndi bæta metið sitt.

„Þessar tölur skipta engu máli í samanburðinum við gleðina ég upplifi við að spila fyrir hönd þjóðar minnar og fjölskyldunnar. Það er auðvitað mikill heiður fyrir mig að vera hluti af sögu brasilíska landsliðsins. Ef ég segi alveg eins og er þá var draumur minn alltaf að klæðast þessari treyju. Ég bjóst aldrei við að ná þessum markatölum,“ sagði Neymar.

Neymar er enn bara 29 ára gamall og ætti því að eiga mörg ár eftir til að bæta met Pele.

Neymar hefur skorað þessi 68 mörk í 107 landsleikjum frá árinu 2010 eða 0,63 mörk í leik.

Pele skoraði 77 mörk í 92 landsleikjum frá 1957 til 1971 eða 0,84 mörk í leik. Ronaldo er þriðji á listanum með 62 mörk í 98 leikjum og Romário skoraði 55 örk í 70 landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×