Sport

Nýliði í NFL deildinni skotinn fjórum sinnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jaylen Twyman spilaði í treyju númer 97 hjá Pittsburgh háskólanum.
 Jaylen Twyman spilaði í treyju númer 97 hjá Pittsburgh háskólanum. AP/Keith Srakocic

Búist er við því að ameríski fótboltamaðurinn Jaylen Twyman nái sér að fullu eftir afdrifaríka heimsókn sína til Washington D.C.

Minnesota Vikings valdi Jaylen Twyman í nýliðavalinu í vor en hans staða er í varnarlínunni og hann spilaði með Pittsburgh háskólanum síðustu ár.

Twyman var í heimsókn til fjölskyldumeðlims í höfuðborginni þegar hann lenti í skotárás. Hann var skotinn fjórum sinnum, í handlegginn, í rassinn og í öxlina.

Drew Rosenhaus, umboðsmaður Twyman, sagði NFL fréttahaukinum Ian Rapoport frá því sem gerðist en leikmaðurinn hafði heppnina með sér því sárin voru ekki alvarleg.

„Þetta eru allt grunn sár, yfirborðssár. Ég talaði við hann og ég talaði við fjölskylduna hans. Þau eru öll á sjúkrahúsinu. Það er búist við því að hann nái sér að fullu,“ sagði Drew Rosenhaus.

„Hann labbaði sjálfur inn á sjúkrahúsið. Hann var saklaus farþegi í bíl á röngum stað á röngum tíma. Þeir tóku myndir af honum en það voru engin brotin bein og engin liðbönd sködduðust. Ég talaði við föður hans og það verður í lagi með hann. Ég lét líka Vikings fólkið vita hvað gerðist og hvernig honum líður,“ sagði Drew Rosenhaus.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×