Viðskipti innlent

Ó­sáttur við að vina­listi á Face­book hafi ratað í vinnu­staða­greiningu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dæmi um Facebook-vinalista. Fólkið á myndinni tengist fréttinni þó ekki að öðru leyti en því að vera starfsmenn fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og Facebook-vinir þess sem fréttina skrifar.
Dæmi um Facebook-vinalista. Fólkið á myndinni tengist fréttinni þó ekki að öðru leyti en því að vera starfsmenn fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og Facebook-vinir þess sem fréttina skrifar.

Persónuvernd segir að vinnsla vinnuveitanda á persónuupplýsingum um starfsmenn geti talist eðlilegur þáttur í starfsemi hans. Starfsmaður fyrirtækis nokkurs kvartaði yfir því að vinnuveitandi hefði notað upplýsingar af vinalista starfsmannsins á Facebook við vinnustaðagreiningu.

Í úrskurði Persónuverndar má lesa að vinnustaðagreiningin hafi farið fram í fyrirtækinu. Starfsmaðurinn sagði að í vinnustaðagreiningunni hefði verið fjallað um vinalista hans og birti skjáskot því til stuðnings. Þar kom fram að þeir starfsmenn sem hefðu verið ósammála honum hefðu fundið fyrir því í samskiptum við hann. Einum hefði til dæmis verið hent út af vinalistanum.

Fyrirtækið hélt uppi vörnum og sagði vinalistann ekki hafa verið skoðaðan, hvorki í tengslum við vinnustaðagreiningu né annað hjá félaginu. Kvartandanum hefði verið tilkynnt um það. Hins vegar staðfesti fyrirtækið að umræddur texti, sem kvartandinn tók skjáskot af, hefði komið fram í vinnustaðagreiningunni. Við gerð hennar hefði sérfræðingur verið fenginn til að taka samtöl við samstarfsmenn og útbúa samantekt úr þeim auk þess að gera tillögur að úrbótum.

Persónuvernd segir í niðurstöðu sinni að almennt sé litið svo á að vinnsla vinnuveitanda á persónuupplýsingum um starfsmenn geti talist eðlilegur þáttur í starfsemi hans. Vinnuveitandi hafi lögmæta hagsmuni af slíkri vinnslu að því gefnu að meginreglum persónuverndarlaga sé fylgt, meðal annars um meðalhóf.

Með vísan til þess telur Persónuvernd að ekki hafi átt sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem brýtur gegn lögum. Ekki sé tilefni fyrir Persónuvernd að rannsaka málið nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×