„Það er mín ósk og minn draumur að þetta taki enda,“ sagði söngkonan í máli sínu fyrir dómaranum. Þar staðfesti hún það sem margir aðdáendur hennar hafa haldið fram um nokkurt skeið; að henni líði hræðilega undir valdi föður síns, valdi sem hún telur hann misnota í sífellu.
Britney var svipt sjálfræði eftir að hún var nauðungarvistuð á geðdeild árið 2008 eftir að hafa fengið taugaáfall.
Svo reið að það nær engri átt
„Ég hef logið því að öllum heiminum að allt sé í lagi og mér líði vel“ sagði Britney við dómarann í dag. Hún hafi verið í afneitun hingað til og talið sér trú um að ef hún segði sjálfri sér nógu oft að henni liði vel færi henni að gera það. „Ég er í losti og áfalli. Ég er svo reið að það nær engri átt.“
Hún segir að hún hafi ekki vitað fyrr af þeim möguleika að sækja um það hjá dómara að hljóta sjálfræði sitt aftur og henni hafi verið sagt að til að gera það þyrfti hún að gangast undir mat geðlækna.
„Ég er hrædd við fólk. Ég treysti ekki fólki eftir það sem ég hef gengið í gegn um,“ sagði söngkonan til að skýra það að hún hafi ekki viljað gangast undir annað geðmat.
Hún bað dómarann um að veita henni sjálfræði sitt aftur án þess að þurfa að vera metin aftur af læknum.
Fær ekki að fjarlægja lykkjuna
„Það er ekki í lagi að neyða mig til að gera hluti sem ég vil ekki gera… Ég trúi því raunverulega að þetta fyrirkomulag sé misþyrmandi. Mér líður ekki eins og ég geti lifað lífinu til fulls.“
Hún sagðist þá vilja giftast og eignast börn en að hún sé með lykkjuna og fái ekki leyfi frá föður sínum til að láta lækni fjarlægja hana. Lykkjan er langtímagetnaðarvörn sem er komið fyrir í legi kvenna.
Britney á kærasta, leikarann Sam Asghari, en hún segist til dæmis vilja fá að ráða því sjálf hvort hún fari með honum í bæjarferð eða ekki. Hún vill þá draga úr þeirri sálfræðimeðferð sem hún hlýtur vikulega.