Erlent

Löfven segir af sér og hyggst reyna að mynda nýja stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven á blaðamannafundi sínum í morgun.
Stefan Löfven á blaðamannafundi sínum í morgun. EPA

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ætlar að segja af sér embætti. Hann hefur þó í hyggju að reyna að mynda nýja stjórn. Frá þessu greindi Löfven á blaðamannafundi klukkan 8:15 í morgun.

Það kemur nú í hlut Andreas Norlén, forseta sænska þingsins, að ræða við formenn flokka og veita þeim umboð til stjórnarmyndunar sem hann telur eiga mesta möguleika að mynda nýja stjórn. Norlén getur fjórum sinnum veitt formönnum umboð til stjórnarmyndunar, en takist ekki að mynda starfhæfa stjórn eftir það þarf lögum samkvæmt að boða til aukakosninga.

Meirihluti sænska þingsins greiddi síðastliðinn mánudag atkvæði með vantrausti á Löfven og stjórn hans. Frestur Löfvens til að tilkynna um næstu skref hefði runnið út á miðnætti í kvöld, en hann stóð frammi fyrir tveimur kostum; annað hvort að boða til aukakosninga sem fram færu á næstu þremur mánuðum eða þá að segja af sér og að í kjölfarið yrðu gerðar tilraunir að mynda nýja stjórn. 

Ekki Svíþjóð fyrir bestu að boða til aukakosninga

Löfven sagði á blaðamannafundinum í morgun að hann hafi ætíð haft það að leiðarljósi að gera það sem hann telji best fyrir Svíþjóð. Það sé sannfæring hans, að í miðjum heimsfaraldri og þegar rúmt ár er til þingkosninga, að aukakosningar sé ekki það sem sé best fyrir Svíþjóð. Því hafi hann ákveðið að segja af sér og að tilraunir verði gerðar til að mynda nýja stjórn. 

Hefði verið boðað til aukakosninga hefðu þingkosningar munu engu að síður farið fram í Svíþjóð í september 2022. Aukakosningar hafa ekki áhrif á að þingkosningar fari fram í landinu á fjögurra ára fresti, en kerfið hefur leitt til þess að afar fátítt er að boðað sé til aukakosninga í landinu. Slíkar kosningar fóru síðast fram árið 1958.

Löfven verður starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð. 

175 þingmenn þarf

Ný stjórn þarf að njóta stuðnings í það minnsta 175 þingmanna, en alls greiddi 181 þingmaður atkvæði með vantrausti síðastliðinn mánudag. Alls eiga 349 þingmenn sæti á sænska þinginu.

Viðræður hafa átt sér stað síðustu daga og hefur spjótum verið sérstaklega beint að Miðflokknum, sem vill helst sjá myndun nýrrar stjórnar með flokkum á miðju stjórnmálanna. 

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, segist hafna því að hleypa flokkunum yst á hinu pólitíska rófi – Svíþjóðardemókrötum og Vinstriflokknum – að stjórn landsins.

Hvað gerir Miðflokkurinn?

Eftir kosningarnar 2018 og langar stjórnarmyndunarviðræður valdi Miðflokkurinn, ásamt Frjálslyndum að verja ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokks Löfvens og Græningja falli. Sú stjórn var þó einnig háð því að Vinstriflokkurinn myndi ekki greiða atkvæði með vantrausti, sem gerðist þó einmitt í síðustu viku.

Vinstriflokkurinn sagðist þá ekki geta sætt sig við ákvörðun ríkisstjórnar Löfvens um að aflétta takmarkanir á hámarksleiguverð í nýju húsnæði.

Löfven hefur verið forsætisráðherra frá 2014.


Tengdar fréttir

Komið að ögur­stund hjá Löfven

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 8:15 að íslenskum tíma. Frestur hans til að tilkynna um næstu skref í kjölfar þess að þingið samþykkti vantraust á hann og ríkisstjórnina rennur út á miðnætti.

Sænska stjórnin fallin

Vantrauststilllaga á hendur Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og ríkisstjórn hans var samþykkt á sænska þinginu. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem vantrausti er lýst á forsætisráðherra Svíþjóðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×