Viðskipti innlent

900 milljóna gjaldþrot umdeildrar bílaleigu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Green Motion uppfærði bílaflotann sinn árið 2016 og við það tækifæri var þessi mynd tekin.
Green Motion uppfærði bílaflotann sinn árið 2016 og við það tækifæri var þessi mynd tekin. Greenmotion.com

Skiptum er lokið í þrotabúi Grunda ehf. sem úrskurðað var gjaldþrota í júní í fyrra. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur námu 898 milljónum króna.

Greint er frá skiptalokunum í Lögbirtingablaðinu í dag. Grundir ehf komust í fréttirnar í febrúar 2019 þegar umfjöllun um bílaleigur sem breyttu kílómetramælum sínum var í hámæli.

Meðal annars var fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ein bílaleiga sem rataði í fréttirnar var Green Motion en Grundir ehf. var rekstrarfélag bílaleigunnar. Rúnar Laufar Ólafsson, framkvæmdastjóri Green Motion, sagði í samtali við Mbl.is í febrúar 2019 að hann ætlaði ekkert að tjá sig um ásakanir þess efnis að bílaleigan hefði sjálf átt við mælana. Kaupendur væru þó alltaf upplýstir ef átt hefði verið við mælana.

Dæmi voru um að kílómetrafjöldi lækkaði um yfir eitt hundrað þúsund kílómetra á milli ára.

Þá fjallaði DV um slæman vitnisburð viðskiptavina Green Motion á neytendasíðum. Frásagnir viðskiptavina lutu margar að meintu tryggingasvindli með þeim hætti að viðskiptavinir væru því sem næst þvingaðir til að kaupa kostnaðarsama tryggingu frá bílaleigunni óháð ferðatryggingu viðkomandi.

Þá voru bílarnir sagðir í misjöfnu ástandi, margir óhreinir að innan sem utan og hjólbarðar slitnir svo hætta gæti skapast af.

Green Motion á Íslandi brást við með yfirlýsingu og sagði einblínt á að veita bestu mögulegu þjónustu og fylgja reglum sem settar væru af Green Motion International.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×