Lífið

Féll fyrir brúð­kaupum þegar hún gifti sig og gerðist brúð­kaupsplanari

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Alina Vilhjálmsdóttir brennur fyrir það að aðstoða brúðhjón og hjálpa þeim að fá brúðkaupsóskir sínar uppfylltar.
Alina Vilhjálmsdóttir brennur fyrir það að aðstoða brúðhjón og hjálpa þeim að fá brúðkaupsóskir sínar uppfylltar. Iceland elopement photography

Þegar Alina Vilhjálmsdóttir missti vinnuna í byrjun árs 2020 ákvað hún að hella sér í brúðkaupsbransann. Hún stofnaði fyrirtækið Andatakið þar sem hún fór að bjóða upp á persónuleg boðskort og annað bréfsefni tengt brúðkaupum. Það vatt þó hratt upp á sig og nú er Alina farin að skipuleggja brúðkaup frá A til Ö fyrir aðra.

„Mig langaði alltaf að fara í plönun en ég er ekki búin að læra neina viðburðastjórnun, þannig ég var svona svolítið smeyk við það. Mér fannst kortin vera góð og skemmtileg leið til þess að komast inn á markaðinn. Svo hefur þetta bara einhvern veginn gerst, fólk sér að ég er með gott auga og einn og einn hefur beðið mig um að plana. Þá byrjar mitt náttúrlega eðli til þess að vilja bara gera allt, að sýna sig,“ segir Alina sem féll fyrir brúðkaupsferlinu við undirbúning á sínu eigin brúðkaupi árið 2019.

Alina rekur fyrirtækið Andartakið, þar sem hún býður upp á persónuleg boðskort og annað bréfsefni.Iceland elopement photography

Í það minnsta heilt ár í undirbúning 

Hún segir vera skort á viðburðastjórum sem sérhæfi sig í brúðkaupum (e. wedding planners) á Íslandi og að þeir fáu sem bjóði upp á slíka þjónustu stíli helst inn á erlendan markað. „Ástæðan er bara peningur. Það er rosa mikill peningur þar og mikið af erlendu fólki sem vill koma og gifta sig hér. Mörg fyrirtæki fókusa líka á samkynhneigð pör. Því samkynhneigt fólk gat komið hingað og gift sig, en gat það kannski ekki í heimalandinu.“

Hún segir engin fyrirtæki einblína sérstaklega á íslenskan markað. „Ég held að ástæðan fyrir því sé kannski að margir eru svolítið fastir í sínu og eru svolítið bara að gera það sama. Mitt markmið er að sýna fólki að að það er hægt að gera þetta bara á sinn hátt. Það er ekki bara ein týpa af brúðkaupi og ein týpa af sal.“

Að mati Alinu ættu verðandi brúðhjón að gera ráð fyrir að minnsta kosti tólf mánuðum í undirbúning og segir hún að þar megi ekki telja desember með, þar sem flest liggi niðri þá vegna jólahalds. Hún segir þó að átján mánuðir séu fullkominn tími. Þau pör sem stefna á að gifta sig næsta sumar ættu því að fara hefjast handa.

Alina segir Íslendinga gjarnan vera fastir í því sama þegar kemur að brúðkaupum.kajabalejko

Brúðkaup ætti að endurspegla brúðhjónin og þeirra líf. Sjálf byggir hún brúðkaup fólks gjarnan á heimili brúðhjónanna og þeim stíl sem þar ríkir. Hún segist handviss um að fólk sé óupplýst um alla möguleikana sem eru í boði þegar kemur að brúðkaupum og að suma skorti einfaldlega ímyndunaraflið. Til dæmis hvetur hún fólk til þess að gifta sig að vetri til, en ekki bara á sumrin eins og mikil hefð er fyrir hér á landi. „Afhverju ekki? Það er ótrúlega kósý. Maður er með kerti og það er dimmt úti. Þetta er eitthvað sem fólk ætti að íhuga.“

Getur kostað 30 þúsund aukalega að láta þrífa confetti

Alina tekur að sér ráðgjöf og skipulagningu fyrir sjálfan brúðkaupsdaginn, en brúðhjónum stendur einnig til boða að hafa hana á svæðinu á stóra daginn, þar sem hún sér til þess að allt gangi rétt fyrir sig. „Ef brúðurin er sein í kirkjuna, þá þarf að hliðra matnum sem er að bíða. Þetta er rosa mikið vegasalt. Ef eitthvað eitt tefst, þá hefur það áhrif á allt hitt. Það er leiðinlegt að vera brúðurin í þeirri stöðu og þurfa að hlaupa til og vera að redda.“

Hún segir brúðhjón gjarnan gleyma að hugsa út í smáatriði sem geta þó reynst mikilvæg á stóra daginn. „Maður þarf til dæmis að hugsa um hvað er fyrir aftan háborðið. Ef það er gluggi þar, þá eru ekki að fara koma flottar myndir. Þetta er mjög lítill hlutur sem skiptir samt svakalega miklu máli, því þetta eru myndir sem þú átt eftir að sýna börnunum þínum og barnabörnum.“

Þá eru einnig fjölmörg önnur hagnýt atriði sem þarf að hafa í huga við undirbúninginn. „Til dæmis hvað er innifalið í leigu á salnum. Oft er tappagjald sem fólk veit ekki af, þá leggst kannski þrjú þúsund króna auka gjald ofan á hverja flösku og þá getur borgað sig að kaupa frekar áfengi á staðnum heldur en að koma með sitt eigið. Hvernig eru hnífapörin? Ef brúðhjónin ætla til dæmis að vera með gullþema en það eru silfurhnífapör, þá þurfum við kannski að leigja þau annars staðar.“

Með því að vera vel upplýstur er hægt að sleppa við ýmsan auka kostnað. „Margir vita ekki að sumir eru með gjald ef þú ætlar að vera með confetti, þá er kannski þrjátíu þúsund krónur aukalega að láta þrífa það upp. Þetta er eitthvað sem fólk spáir ekkert í.“

„Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því hvað það er mikil vinna sem fer í að skipuleggja brúðkaup og heldur að það geti bara gert það sjálft. Þetta er alveg rosalega mikil vinna og rosa mikið af tölvupóstum og samskiptum sem þurfa að eiga sér stað,“ segir hún.

Þá mælir hún með því að hringja á minnst þrjá staði til þess að gera verðsamanburð, áður en eitthvað er bókað. Það krefst fyrirhafnar og tíma sem fæstir hafa. Þá getur borgað sig að fjárfesta í skipuleggjanda. „Það er rosa lítið af upplýsingum þarna úti um það hvað hlutir kosta, þannig maður bara miðar við það sem maður þekkir, en það er ekki rétti samanburðurinn. Brúðkaupsvöndur og blómvöndur í Hagkaup er ekki sami hluturinn. Oft áttar fólk sig ekki á því og skilur ekkert afhverju allt er svona dýrt.“

„Erlenda fólkið er tilbúið að borga mun meira fyrir myndirnar sínar, þó þetta séu ekki mjög dýrar myndir, því það eru alveg ljósmyndarar erlendis sem taka alveg milljón fyrir brúðkaup.“Iceland elopement photography

Góður ljósmyndari er ein mikilvægasta fjárfestingin að mati Alinu. Hún segir þó að virði ljósmyndara sé ekki það sama hér á landi og erlendis. „Erlenda fólkið er tilbúið að borga mun meira fyrir myndirnar sínar, þó þetta séu ekki mjög dýrar myndir, því það eru alveg ljósmyndarar erlendis sem taka alveg milljón fyrir brúðkaup. Það eru nú ekki alveg það há verð hérna heima að maður sé eitthvað að missa peningaveskið yfir því.“

Þrátt fyrir að Alina segi mikilvægt að pör áætli sér nægilega mikið fjármagn miðað við þann staðal af brúðkaupi sem það hefur í huga, þá segir hún enn mikilvægara að fjármagninu sé ráðstafað á skipulagðan hátt. „Þetta snýst ekki um að vera með mikið fjármagn, heldur bara að vera með fyrirfram ákveðið fjármagn. Þá ákveður maður bara hvaða topp þrír hlutir skipta mestu máli og þangað fer þá meirihlutinn af fjármagninu og restin verður þá bara ódýr. Þá færðu allavega það sem þér finnst skipta mestu máli, frekar en að vera búin að borga fyrir einhverja hluti og svo sitji mikilvægustu hlutirnir á hakanum.“

Hvetur fólk til þess að borga fyrir þægindi

En hvað þarf maður að eiga mikinn pening til þess að halda brúðkaupsveislu? „Auðvitað er alveg hægt að gera fallegt brúðkaup fyrir lítið. Mín ráðlegging er þó að eiga allavega tvær til þrjár milljónir fyrir fallegt brúðkaup, nokkur blóm og fallegan sal. Auðvitað geturðu alveg gert það fyrir minna og verið þá með sal þar sem maturinn er ekki innifalinn og þú skreytir allt sjálfur, en það er bara ótrúlega mikið stress á alla fjölskyldumeðlimi. Svo er alveg ótrúlega leiðinlegt að þurfa koma daginn eftir að þrífa. Þannig ég mæli frekar með að fólk borgi aðeins meira fyrir þægindi og áhyggjuleysi.“

„Ef brúðurin er sein í kirkjuna, þá þarf að hliðra matnum sem er að bíða. Þetta er rosa mikið vegasalt. Ef eitthvað eitt tefst, þá hefur það áhrif á allt hitt. Það er leiðinlegt að vera brúðurin í þeirri stöðu og þurfa að hlaupa til og vera að redda.“Iceland elopement photography

Þótt Alina hafi stigið sín fyrstu skref inn í brúðkaupsiðnaðinn á sjálfu Covid-árinu 2020 þegar veislur voru í lágmarki, segir hún búið að ganga furðulega vel. Fyrirtækið Andartakið hefur gengið vonum framar og skipulagði Alina eitt brúðkaup í júní á þessu ári og annað brúðkaup er á döfinni núna í júlí.

Þá segist hún vera talsvert bókuð á svokallaðan „fyrsta fund“, þar sem pör í brúðkaupshugleiðingum hitta hana til þess að heyra hvað hún hefur upp á að bjóða. „Hópurinn sem frestaði var náttúrlega kannski búinn að skipuleggja allt, þannig það er mikið bara verið að endurbóka og því kannski lítil þörf á skipuleggjanda. En fólk er svona að vakna til lífsins og hugsa „hey við getum farið að gifta okkur á næsta ári“. Þannig ég get vel trúað því að það verði mikið að gera á næsta ári.“

Brúðkaupsdagurinn er einhver eftirminnilegasti dagur í lífi fólks og verður ekki tekinn til baka. Því er mikilvægt að allt gangi sem best og brúðhjónin fái óskir sínar uppfylltar.Iceland elopment photography

„Þú tekur þennan dag ekkert til baka“

En hvað er það skemmtilegasta við brúðkaup að mati Alinu? „Það er augnablikið þegar salurinn er tilbúinn og þú ert búin að kveikja á öllum kertunum. Gestirnir koma inn og sjá afraksturinn. Að sjá öll brosin og heyra öll „Vá-in“.  Öll þessi vinna sem er kannski búin að vera í undirbúningi í ár er að klárast og að koma þessari gleði á andlit fólks. Það er þessi rafmagnaða tilfinning og ég veit að brúðhjónin eru ánægð, því það er fyrst og fremst markmiðið.“

Markmið Alinu er að vera aðgengileg öllum og hefur hún stofnað Instagram-aðganginn Og smáatriðin, þar sem hægt er að hafa samband við hana. Þar mun hún einnig bjóða upp á skemmtilegar hugmyndir og góð ráð. Framtíðardraumurinn er þó að geta boðið upp á námskeið. „Ég vil að gögnin mín og þjónusta sé aðgengileg öllum, en ekki bara þeim sem eiga pening til að eyða í planara, heldur líka bara þeim sem vilja taka námskeið eða fá einhvers konar aðstoð. Ég vil bara gera þennan bissness aðgengilegan öllum, því þú tekur þennan dag ekkert til baka. Þetta er bara gert og svo er dagurinn búinn. Þannig það er gott að hafa einhvern sem passar upp á að draumurinn þinn rætist“ segir Alina.


Tengdar fréttir

„Fólk er endalaust að herma eftir náunganum“

Þegar Alina Vilhjálmsdóttir missti vinnuna ákvað hún að láta drauminn rætast og byrja með sitt eigið fyrirtæki. Alina rekur fyrirtækið Andartak sem aðstoðar brúðhjón við undirbúninginn, meðal annars með persónulegum boðskortum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×