Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður Man. Utd. kýldi öryggisvörð eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcos Rojo var heitt í hamsi eftir leik Boca Juniors og Atlético Mineirao.
Marcos Rojo var heitt í hamsi eftir leik Boca Juniors og Atlético Mineirao. getty/Marcelo Endelli

Slagsmál brutust út eftir leik Boca Juniors og Athlético Mineirao í Suður-Ameríkubikarnum. Marcos Rojo, fyrrverandi leikmaður Manchester United, kýldi öryggisvörð í látunum.

Leikmenn Boca voru æfir eftir að mark Marcelos Weigandt var dæmt af eftir skoðun á myndbandi. Úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni þar sem Mineirao hafði betur og komst þar með í átta liða úrslit Suður-Ameríkubikarsins, Copa Libertadores, sem er eins konar Meistaradeild Suður-Ameríku.

Eftir leikinn reyndu leikmenn Boca að brjótast inn í búningsklefa Mineirao. Forseti brasilíska liðsins stóð í dyragættinni og ögraði Boca-mönnum og þá varð fjandinn laus. 

Leikmenn liðanna slógust og lögregla var kölluð til. Hún beitti meðal annars táragasi til að kveða ólætin niður.

Rojo var sérstaklega æstur og á myndbandi frá ólátunum sást hann kýla öryggisvörð. Rojo gekk í raðir Boca frá United fyrr á þessu ári.

Gamla hetjan Juan Roman Riquelme, sem er varaforseti Boca, varði hegðun leikmanna liðsins eftir leik.

„Þegar þeir voru í búningsklefanum byrjaði jakkafatakall að ýta leikmönnunum og móðga þá. Svo notaði lögreglan táragas. Hvað gerirðu þá? Leyfir þeim að slá þig eða grípur til varna? Forseti þeirra kastaði flöskum. Þeir sögðu ekkert við lögregluna. Það er sannleikurinn í málinu,“ sagði Riquelme.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×