Erlent

Stjórnandi opnunarhátíðarinnar rekinn fyrir grín um helförina

Árni Sæberg skrifar
Opnunarhátíð Ólympíuleikanna fer fram á morgun.
Opnunarhátíð Ólympíuleikanna fer fram á morgun. vísir/Getty

Stjórnandi opnunarhátíðar Ólympíuleikanna sem hefjast á morgun í Tókýó hefur verið látinn taka pokann sinn vegna gríns um helförina.

Myndefni frá tíunda áratugi síðustu aldar hefur komið í ljós þar sem stjórinn, Kentaro Kobayashi, virðist vera að segja brandara af helför nasista gegn gyðingum. 

Yfirmaður leikanna í Japan, Seiko Hashimoto, segir að myndefnið geri lítið úr sársaukafullum atburðum í sögunni og því hafi verið ákveðið að láta Kentaro fara.

„Enginn, sama hversu skapandi, hefur rétt til að gera grín að fórnarlömbum helfararinnar,“ sagði Abraham Cooper, rabbíni og talsmaður Simon Wiesenthal stofnunarinnar, um atvikið.

Ekki sá fyrsti til að taka pokann sinn

Hvert áfallið á eftir öðru dynur nú á leikunum, auglýsendur hafa dregið sig í hlé, almenningur í Japan er ósáttur og kórónusmitum í Ólympíuþorpinu fjölgar. 

Þá var tónskáld sem starfaði við opnunarhátíðina einnig rekið í gær eftir að í ljós kom að hann hafði lagt fatlaða samnemendur sína í skóla í einelti á sínum tíma.

Fleiri tengdir leikunum hafa helst úr lestinni fyrir óviðeigandi ummæli. Í mars hætti yfirhönnuður leikanna, Hiroshi Sasaki, eftir að hann gerðist uppvís að því að gera grín að holdafari kvenkyns grínista. Hann stakk upp á því að hún kæmi fram á leikunum sem „Olympig“ eða Ólympíusvínið.

Þá var Yoshiro Mori, yfirmanni skipulagsnefndar leikanna, gert að segja af sér í febrúar eftir að hann hafði uppi niðrandi ummæli um konur. Hann lét hafa eftir sér að konur tali of mikið og að fundir með konum taki of langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×