57 starfsmenn og 42 sjúklingar á Landakoti greindust smitaðir og yfir tíu sjúklingar létust þegar hópsýking kom þar upp í október og nóvember í fyrra.
Landlæknisembættið rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að ófullkomin hólfaskipting hefði verið helsti áhrifaþáttur þess að hópsýkingin hafði eins alvarlegar afleiðingar og raun bar vitni.
Sjá einnig: Slæm hólfaskipting réði úrslitum um harmleikinn á Landakoti
Formaður farsóttanefndar Landspítalans bindur vonir við að búið sé að stoppa í þá leka sem auðkenndir voru í skýrslunni.
„Í fyrsta lagi þá er ein deildin sem hefur verið tekin í notkun eftir gagngerða endurnýjun. Þar er fullkominn loftræstibúnaður og öll aðstaða bæði sjúklinga og starfsmanna framúrskarandi. Síðan erum við að skima alla vikulega sem eru inniliggjandi á Landakoti og Vífilstöðum og reyndar á fleiri deilum þannig það ætti að hjálpa okkur að greina tilfelli fyrr,“ sagði Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítala.
Unnið að úrbótum
Slík reglubundin skimun hefur ekki verið framkvæmd á Landakoti áður. Már segir að húsnæðið og starfsemin bjóði ekki upp á fullkomna hólfaskiptingu.
„Það eru ákveðnir þættir í eðli endurhæfingarstarfsins sem fer fram á öldrunardeildunum sem gerir alla hólfaskiptingu mjög önuga. Hins vegar voru þættir þarna eins og aðstaða starfsmanna sem má bæta þannig það eru þættir þarna í þessari svokölluðu hólfaskiptingu sem má betrumbæta.“
Unnið er að úrbótum á aðstöðu starfsmanna með tilliti til hólfaskiptingar.
„Þetta er allt saman okkur í fesrku minni þannig við erum að reyna að draga úr öllum smitleiðum sem við getum.“