Erlent

Forseti Túnis setur á útgöngubann

Árni Sæberg skrifar
Götur Túnis fylltust af fólki eftir að þing var rofið á sunnudag.
Götur Túnis fylltust af fólki eftir að þing var rofið á sunnudag. Getty/Khaled Nasraoui

Forseti Túnis, Kais Saied, hefur sett á útgöngubann sem gildir í einn mánuð. Túnisbúar mega ekki fara út úr húsi milli sjö á kvöldin og sex á morgnanna. Þá mega ekki fleiri en þrír safnast saman á almannafæri og bannað er að ferðast milli borga nema í brýnni þörf.

Kais Saied rak forsætisráðherra Túnis og rauf þing á sunnudag en hann hyggst taka yfir stjórn landsins með aðstoð nýs forsætisráðherra. Stjórnarflokkurinn og þingforseti lýsa aðgerðunum sem valdaráni.

Aðgerðir forsetans eru sagðar nýjasti vendipunkturinn í ört versnandi stjórnmálakreppu og ljóst að nú mun reyna verulega á stjórnarskrá landsins sem tók gildi eftir lýðræðisbyltinguna árið 2014. Kveður hún meðal annars á um lýðræðislega stjórnarhætti og valddreifingu milli forseta, forsætisráðherra og þings.

Hichem Mechichi, forsætisráðherrann sem látinn var taka pokann sinn á sunnudag, tilkynnti í gær að hann myndi láta friðsamlega af völdum.

„Til þess að varðveita öryggi allra Túnisbúa, tilkynni ég að ég stend með þjóðinni líkt og ég hef alltaf gert og að ég mun ekki taka neina stöðu eða ábyrgð hjá ríkinu,“ sagði Mechichi í gær á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×