Íslenski boltinn

Nik Chamberlain: Frábær leið til að byrja leikinn

Sverrir Már Smárason skrifar
Nik var að vonum ánægður í kvöld.
Nik var að vonum ánægður í kvöld. vísir/hulda margrét

Þróttur R. unnu góðan 3-0 sigur á Keflvíkingum í Pepsi-Max deild kvenna í kvöld. Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar var sáttur í leikslok.

„Mjög ánægður með sigurinn. Í fyrri hálfleik skorum við snemma mjög gott mark en verðum svo frekar kærulausar, gerðum illa í ákveðnum stöðum og gáfum Keflavík nokkrar opnanir. Í seinni hálfleik stýrðum við leiknum og vorum heilt yfir mjög góðar. Taktíska frammistaðan var góð og þetta var góð leikstjórn,“ sagði Nik um sigurinn.

Þróttur skoraði snemma í bæði fyrri og seinni hálfleik og fékk við það smá andrými. Nik var ánægður með mörkin en ósáttur við það sem fylgdi á köflum.

„Frábær leið til að byrja leikinn, þetta var líkt leiknum gegn Fylki að mörgu leyti þar sem við gefum aðeins eftir á köflum. Í seinni skorum við snemma líka og höldum svo út eftir það,“ sagði Nik.

Linda Líf Boama byrjaði á bekknum í kvöld og sömuleiðis Guðrún Gyða sem skoraði síðast gegn Val og aftur í kvöld. Nik er ánægður með samkeppnina sem er að myndast en þó eru nokkrir leikmenn á leið út í Háskólanám.

„Mjög góð staða fyrir þjálfara, Guðrún Gyða er þó á leið til Bandaríkjanna í skóla en hún hefur verið frábær í síðustu leikjum. Linda Líf hefur spilað vel en við vildum breyta aðeins til og að geta skipt leikmanni inná með hennar hraða og kraft hræðir önnur lið. Þetta er góður hausverkur en í hverjum leik skiptir það máli móti hverjum við spilum,“ sagði Nik.

Með sigri fer Þróttur upp í 3.sæti deildarinnar, í bili í það minnsta, en með tapi hefði liðið getað sogast niður í fallbaráttu.

„Við erum ánægð þar sem við erum í dag, þetta var 6 stiga leikur. Hefðum við tapað þá hefðu aðeins verið 3 stig niður í fallsæti en með sigri erum við 9 stigum frá. Vonandi getum við bætt það. Við settum okkur markmið um að halda okkur í deildinni og fall er ennþá tölfræðilega mögulegt en við sýnum gæði og viljum hafa gaman að þessu,“ sagði Nik svo að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×