Körfubolti

Stórt tap í síðari leiknum í Eistlandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ægir Þór var stigahæstur í dag, rétt eins og í leik gærdagsins.
Ægir Þór var stigahæstur í dag, rétt eins og í leik gærdagsins. vísir/andri marinó

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði með 21 stigs mun, 93-72, fyrir Eistlandi í síðari æfingaleik liðanna ytra í dag. Liðið heldur heim á morgun og býr sig undir leiki í forkeppni HM 2023.

Ísland var að spila sinn annan leik við Eistland en fyrri leikurinn tapaðist 91-79 í gær. Ungur og óreyndur hópur er í Eistlandi þar sem hópurinn er að mestu skipað leikmönnum úr efstu deild hér heima.

Íslenska liðið hafði staðið lengi vel í þeim eistnesku í leik gærdagsins þar sem þriðji leikhlutinn varð þeim að falli. Eistar voru aftur á móti með yfirhöndina allt frá upphafi í dag.

Eistar leiddu 26-17 eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik var munurinn orðinn 16 stig, 50-34. Eistland skoraði þá 27 stig gegn 17 til að gera út um leikinn í þriðja leikhlutanum. Ísland bætti stöðuna í fjórða leikhlutanum en 21 stigs tap niðurstaðan, 93-72 fyrir Eistland.

Rétt eins og í leik gærdagsins var Ægir Þór Steinarsson stigahæstur í íslenska liðinu. Hann skoraði 16 stig en Þórir Þorbjarnarson skroraði ellefu og Elvar Már Friðriksson tíu stig.

Íslenska liðið heldur heim á leið á morgun og kemur hluti hópsins þá til æfinga ásamt reyndari mönnum og fleiri atvinnumönnum að utan. Fram undan er stórt verkefni hjá liðinu í Svartfjallalandi.

Ísland leikur þar við Svartfjallaland og Danmörku í þriggja liða riðli í lokaumferð í forkeppni HM 2023. Ísland mun þar leika tvo leiki við hvort lið dagana 12. til 17. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×