Erlent

Hundrað ára gamall maður ákærður fyrir þátt sinn í helförinni

Árni Sæberg skrifar
Í dag stendur minnisvarði og safn um fórnarlömb helfararinnar þar sem Sachsenhausen fangabúðirnar voru áður.
Í dag stendur minnisvarði og safn um fórnarlömb helfararinnar þar sem Sachsenhausen fangabúðirnar voru áður. Paul Zinken/Getty

Hundrað ára gamall Þjóðverji verður dreginn fyrir dómstóla í haust. Hann er ákærður fyrir hlutdeild í rúmlega 3,500 morðum.

Maðurinn var fangavörður í Sachsenhausen fangabúðunum í grennd við Berlín milli 1942 og 1945.

Tugir þúsunda fanga létust í Sachsenhausen fangabúðunum frá stofnun þeirra árið 1936 til loka seinni heimstyrjaldarinnar árið 1945. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu safns um fangabúðirnar voru sumir fanganna fórnarlömb kerfisbundinnar útrýmingar.

Þrátt fyrir aldur mannsins segir talsmaður réttarins að hann ætti að geta verið viðstaddur réttarhöldin í allt að tvo og hálfan klukkutíma á dag.

Málið verður rekið fyrir dómstól í Neuruppin, bæ í Brandenburg í austurhluta Þýskalands.

Saksóknarar í Þýskalandi eru enn með nokkur dómsmál í gangi á hendur þeim sem bera ábyrgð á helförinni. Vatnaskil urðu í þeirri baráttu árið 2011 þegar dómstóll í Munchen dæmdi að það eitt að hafa starfað í fangabúðum Nasista sé næg ástæða til sakfellingar. Því þarf ekki lengur að sanna einstaka glæpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×