Umfjöllun og viðtöl: KA - Keflavík 2-1 | Hallgrímur Mar hetja KA-manna

Árni Gísli Magnússon skrifar
Hallgrímur Mar skoraði bæði mörk KA í kvöld.
Hallgrímur Mar skoraði bæði mörk KA í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KA og Keflavík mættust á Greifavellinum í 15. umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld. KA hafði að lokum sigur, 2-1, og blanda sér að alvöru í toppbaráttu deildarinnar.

Keflvíkingar ógnuðu strax eftir 5 mínútna leik þegar Marley Blair fékk boltann úti vinstra megin og fór auðveldlega framhjá nokkrum varnarmönnum KA og átti fínt skot sem fór hárfínt framhjá fjærstönginni. Stuttu seinna varð mikill darraðadans í teig gestanna þegar hár bolti sveif inn í teiginn og eftir mikinn atgang í teignum endaði boltinn hjá Elfari Árna en á endanum lak boltinn framhjá markinu.

Það dró til tíðinda á 24. mínútu þegar Hallgrímur Mar fékk boltann vinstra megin við teig gestanna, fór inn til hægri og smellti boltanum laglega niðri fjærhornið og kom heimamönnum í forystu.

Eftir markið tók KA liðið yfir leikinn og voru betri aðilinn út hálfleikinn. Það kom því gegn gangi leiksins þegar gestirnir jöfnuðu úr vítaspyrnu á lokamínútu hálfleiksins. Joey Gibbs átti þá skot sem fór í höndina á Þorra Mar og benti Helgi Mikael á punktinn. Joey Gibbs steig sjálfur á punktinn , sendi Steinþór Már í vitlaust horn og setti boltann örugglega í markið, fast niðri í hægra hornið. Jafnt í hálfleik.

Líkt og í fyrri hálfleik byrjuðu Keflvíkingar af krafti og strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks komst Kian Williams í fínt færi utarlega í teignum en skot hans fór hárfínt framhjá og skruppu heimamenn með skrekkinn. Joey Gibbs átti svo tvö skot í röð að marki KA stuttu seinna en inn vildi boltinn ekki.

Um miðbik hálfleiksins voru KA menn nánast komnir í gegn og inn í teig gestannan en Frans Elvarsson átti þá frábæra tæklingu og komst í boltann og bjargaði Keflvíkingum fyrir horn. Leikurinn var nokkuð jafn næstu 20 mínútur eða svo og áttu báðu lið hálffæri.

Bjarni Aðalsteinsson kom inn á 68. mínútu og breytti leik KA algjörlega sóknarlega séð. Hann var mjög skapandi frá fyrstu sekúndu og lagði að lokum upp sigurmark KA í leiknum. Hann fékk þá boltann hátt í teig gestanna, leit upp og setti boltann til vinstri á Hallgrím Mar sem gerði það sama og í fyrra markinu, skrúfaði boltann laglega niðri í fjærhornið og tryggði KA dýrmæt þrjú stig.

Af hverju vann KA?

Jafntefli hefðu ekki verið ósanngjörn úrslit en erfitt er þó að segja að sigur KA hafi verið ósanngjarn. Einstaklingsgæði hjá Hallgrími Mar í báðum mörkunum er það sem skilur að lokum liðin að.

Hverjir stóðu upp úr?

Hallgrímur Mar skorar bæði mörk KA í dag og var auk þess mjög ógnandi allan leikinn. Hann er klárlega maður leiksins. Fast á hæla hans kemur Bjarni Aðalsteinsson sem kom með þann ferskleika sem þurfti í sóknarleik KA í dag. Ef ekki hefði verið fyrir hans innkomu er ekki víst að KA hefði landað sigrunum. Mikkel Qvist var flottur í öftustu línu og virist ekki hafa mikið fyrir hlutunum.

Hjá Keflavík var Joey Gibbs síógnandi en vantaði herslumuninn til að koma boltanum í netið í opnum leik.

Hvað gekk illa?

Það gekk ekki vel hjá miðjumönnum KA, Sveini Margeiri og Sebasitaan Brebels, að skapa mikið sókarnlega fyrir KA liðið í dag.

Hvað gerist næst?

KA menn fara í Víkina á sunnudaginn kemur og mæta þar særðum Víkingum eftir stórt tap þeirra gegn Breiðablik í gær. Leikurinn hefst kl. 17:00.

Keflvíkingar fá Fylkismenn í heimsókn á sunnudaginn í leik sem hefst kl. 19:15 suður með sjó.

KA og Keflavík mætast svo aftur Miðvikudaginn 11. ágúst í Mjólkubikarnum í leik sem fer fram í Keflavík kl. 18:00.

Sigurður: Mér fannst algjör óþarfi hjá okkur að tapa þessum leik

Sigurður Ragnar var ekki sáttur við að tapa í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar tveggja þjálfara Keflavíkur, var nokkuð sáttur með spilamennsku síns lið í dag en svekktur með að fara tómhentur heim.

„Svekkelsi bara, mér fannst algjör óþarfi hjá okkur að tapa þessum leik, mér fannst við gefa þeim mörkin, alltof auðveld mörk. Ég var ekkert ósáttur við spilamennsku Keflavíkur í leiknum, við gerðum margt gott í leiknum sem við getum verið bara ánægðir með og það er líka margt sem við getum lært af og liðið er að læra, liðið er ungt, við erum með næst yngsta liðið í deildinni og það er erfitt að koma að spila á móti erfiðu KA liði og völlurinn var erfiður líka en okkur tókst bara nokkuð vel að spila góðan fótbolta en það er svekkelsi að fara tómhentir heim.”

Keflvíkingar jöfnuðu úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks sem var gott veganesti inn í síðari hálfleik.

„Það var auðvitað gott fyrir okkur að jafna, mér fannst leikurinn fá að fljóta kannski fullmikið, það var lítið verið að dæma aukaspyrnur og annað og meira en venjulega í Pepsi Max deildar leik þannig að við vorum kannski smá tíma að venjast því en mér fannst við spila bara vel á köflum og vissum að KA mennirnir eru með hörku lið og góðan mannskap og að þetta yrði erfiður leikur enda töpuðum við stórt fyrir þeim í Keflavík en maður sér miklar framfarir á liðinu síðan þá. ”

„Já auðvitað, það er búið að ganga fínt hjá okkur miðað við aðstæður, meiðsli og annað, þá held ég að við höfum staðið okkur ágætlega og kannski framar væntingum flestra en mótið er ekki búið og maður þarf alltaf að reyna sækja stig og það var ákveðið test fyrir okkur hvort við gætum komi og sótt stigin hér. Það tókst ekki í dag þannig að við eigum enn eftir margt ólært og reynum bara að læra af því”, sagði Sigurður ennfremur aðspurður hvort mikið sjálfstraust hafi verið í liðinu eftir flottan sigur á móti Breiðablik í síðasta leik.

Keflvíkingar töpuðu dýrmætum stigum undir lok leiksins og er það dýrt í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.

„Ég lít ekki endilega á það að við séum í fallbaráttu, við höfum frekar viljað horfa ofar í deildinni en það á eftir að koma í ljós kannski en jú við hefðum viljað þrjú stig og sjáum í haust hvort þetta hafi verið virkilega slæmt tap eða hvað en við áttum klárlega skilið finnst mér eitt stig í dag, klárlega”, sagði Sigurður að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira