Enski boltinn

Að­gerðin heppnast vel og Ras­h­ford ætti því að snúa aftur í október

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rashford fagnar marki gegn Granada í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.
Rashford fagnar marki gegn Granada í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð. EPA-EFE/MIGUEL ANGEL MOLINA

Enski landsliðsmaðurinn Marcus Rashford lét loksins verða af því að fara í aðgerð á öxl en leikmaðurinn hefur spilað sárþjáður undanfarna mánuði. Eftir að Evrópumótinu lauk á eins svekkjandi hátt og mögulegt er ákvað Rashford að fara undir hnífinn.

Marcus Rashford hefur verið að glíma við ýmis meiðsli undanfarin misseri. Ásamt því að vera meiddur á öxl þá hefur hann einnig verið meiddur á ökkla og svo var framherjinn frá vegna bakmeiðsla á þar síðustu leiktíð.

Stuðningsfólk Manchester United vonaðist til að Rashford færi í aðgerð fyrir Evrópumótið og myndi nýta sumarið í að jafna sig. Þjóðarstoltið var hins vegar of mikið og Rashford fór með landsliði Englands á EM þar sem liðið endaði í öðru sæti eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Ítalíu í úrslitaleik.

Eftir vonbrigðin á Wembley ákvað hinn 23 ára gamali Rashford að fara í aðgerð og verður hann frá fram í október vegna hennar. Með því vonast Rashford eftir því að vera næstum heill heilsu er hann snýr aftur en hann var langt frá því að geta beitt sér að fullu á síðustu leiktíð.

Rashford hefur tjáð sig á samfélagsmiðlum og sagt að aðgerðin hafi gengið vel. Nú sé endurhæfing framundan og svo mæti hann frískur til leiks að henni lokinni.

Manchester United er ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að framherjum. Ásamt Rashford eru þeir Anthony Martial, Edinson Cavani, Jadon Sancho, Mason Greenwood og Daniel James allir á mála hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×