Enski boltinn

Van Dijk skrifar undir til 2025

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Virgil hefur verið frábær síðan hann gekk í raðir Liverpool.
Virgil hefur verið frábær síðan hann gekk í raðir Liverpool. EPA-EFE/PETER POWELL

Hollenska varnartröllið Virgil van Dijk hefur skrifað undir nýjan samning hjá enska knattspyrnufélaginu Liverpool. Hann er nú samningsbundinn Bítlaborginni til ársins 2025.

Samningur þessa þrítuga miðvarðar átti að renna út sumarið 2023 en Liverpool hefur nú bætt tveimur árum við samninginn. Menn hafa verið duglegir að framlengja við Liverpool í sumar en þeir Trent Alexander-Arnold, Fabinho og Alisson hafa allir framlengt samninga sína.

Van Dijk var eins og flest vita mikið frá vegna meiðsla á síðustu leiktíð. Hann spilaði aðeins fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni og er talið að það hafi spilað sinn þátt í slöku gengi Liverpool-liðsins framan af leiktíð.

Miðvörðurinn tók enga sénsa, sleppti því að taka þátt á Evrópumótinu og ætti því að vera klár í slaginn er Liverpool mætir Norwich City á sunnudag í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Síðan Van Dijk samdi við Liverpool sumarið 2018 hefur félagið unnið 76 prósent allra deildarleikja sem Hollendingurinn hefur spilað. Enginn leikmaður sem hefur spilað yfir 80 leiki í deildinni er með jafn gott sigurhlutfall.

Ef sú tölfræði helst er ljóst að Liverpool mun berjast á toppi deildarinnar allt til loka tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×