Í borginni Herat féll heil herdeild stjórnarhersins saman þegar hundruð hermanna afhentu Talibönum vopn sín og aðrir flúðu. Herdeildin var umkringd í herstöð í jaðri borgarinnar og eru viðræður um uppgjöf sagðar hafa byrjað í gærkvöldi eftir að borgin féll.
Í frétt Washington Post segir að æðstu ráðamenn héraðsins hafi samið við Talibana í skiptum fyrir vernd.
Hundruð hermanna til viðbótar gáfust upp í Helmand-héraði og veittu Talibönum stjórn á héraðshöfuðborginni Lashkar Gah. Kandahar hefur einnig fallið í hendur Talibana en hún og Herat eru stærstu borgir landsins, að Kabúl undanskilinni.
Í Kandahar hafa fregnir borist af því að þúsundir hermanna hafi lagt niður vopn sín.
— C4H10FO2P (@markito0171) August 13, 2021
Sambærilegar sögur af uppgjöfum hermanna hafa borist víðar frá Afganistan.
AP fréttaveitan segir Talibana stjórna um tveimur þriðju landsins og stórsókn þeirra síðustu vikuna sé ætlað að einangra Kabúl, höfuðborg landsins. Talibanar ógna borginni ekki beint enn en í dag tóku þeir héraðshöfuðborg sem er í einungis 50 kílómetra fjarlægð frá Kabúl.
Friðarviðleitni og viðræður erindreka ríkisstjórnar Afganistans og bakhjarla hennar annars vegar og Talibana hins vegar hafa engum árangri skilað. Þær standa þó enn yfir.
Reuters fréttaveitan hefur eftir heimildarmönnum sínum í Bandaríkjunum að þar á bæ sé óttast að Talibanar geti ráðist á Kabúl á næstu dögum.
Ríki heimsins eru að loka sendiráðum sínum í Kabúl og flytja borgara sína á brott. Bandaríkin sendu í dag um þrjú þúsund hermenn til að aðstoða við flutningana og Bretar sendur sex hundruð hermenn. Þá sendu Kanadamenn sérsveitir til Kabúl sem eiga að hjálpa við að tæma sendiráð Kanada þar.
Danir og Norðmenn hafa í dag ákveðið að loka sendiráðum sínum í Kabúl og flytja borgara sína á brott.
Herinn rotinn innan frá
Sérfræðingur segir í samtali við blaðamann AP að stjórnarher Afganistans hafi verið rotinn innan frá vegna spillingar og vanhæfni. Hermenn séu flestir illa búnir, lítið þjálfaðir og með takmarkaðan baráttuvilja.
Samhliða versnandi ástands innan hersins hafi Talibanar varið áratugi í að taka stjórn á dreifðari byggðum Afganistan og undirbúa sig fyrir þá sókn sem hófst eftir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hann myndi flytja alla hermenn frá Afganistan fyrir september.
Þá segir hann að sókn Talibana geri stjórnarhernum erfitt að flytja birgðir og liðsauka um landið og að ríkisstjórn landsins muni leggja alla áherslu á að verja Kabúl.
„Hvaða sveitir sem eftir eru í nánd við Kabúl munu verða notaðar til að verja borgina,“ segir Bill Rogio. Hann segir að stjórnarherinn muni líklegast ekki geta rekið Talibana frá þeim héruðum sem vígamennirnir hafa þegar náð, án þess að eitthvað mikið breytist.

Á þessu ári er talið að um 400 þúsund borgarar hafi þurft að flýja heimili sín í Afganistan og þar af 250 þúsund frá því í maí. Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ástandið í landinu beri merki þess að stefna í mannúðar-neyðarástand.
Áhugasamir geta kynnt sér fréttaskýringu Al Jazeera á því hverjir Talibanar eru, sem var gerð í kjölfar þess að Biden tilkynnti áðurnefnda ákvörðun sína um að fara frá Afganistan.