Auður fylgdist með því hvernig piltur, sem var að rífast áberandi hátt í símann, brást hinn versti við þegar kona með barn bað hann að lækka róminn vegna barnsins. Hann „snappaði“ þá á konuna, eins og Auður lýsir því í samtali við Vísi, og þá sá hún ástæðu til að skerast í leikinn.
Hún fór að þeim og bað piltinn að róa sig og vera ekki að æpa á móður með barn. Þá lyftir hann upp peysunni og lætur skína í stærðarinnar hníf, sem var að sögn Auðar meira á stærð við sveðju.
„Hann var með hnífinn skorðaðan í buxnastrenginn og þetta var alveg rosahnífur. Stór með stóru skafti og með svona eins á sagarhnífum eins og ég man þetta,“ segir Auður.

Þegar hér var komið sögu tók móðirin upp símann til að hringja á lögregluna og þá voru pilturinn og félagi hans ekki lengi að stökkva upp á rafskutlur og láta sig hverfa.
Auður þekkir ekki hvort atvikið hafi orðið að eiginlegu lögreglumáli. Hún segir óljóst hve gamlir piltarnir voru en ekki eldri en á menntaskólaaldri, telur hún.
Auður býr sjálf í Njálsgötu þar sem atvikið átti sér stað og var að bíða eftir mat í Drekanum.
„Þetta gerðist svo hratt að ég bara trúði ekki eigin augum, ég var það undrandi. Svo voru þeir allt í einu bara farnir og ég fór bara og sótti hamborgarana. Þetta var svolítið eins og í bíómynd. Hér er oftast bara góðlátleg stemning á líflegu torgi. Ég kalla ekki allt ömmu mína og hef búið á alls konar stöðum, en þetta var alveg fríkað atferli.“