Líkt og greint var frá fyrr í dag greindist smit í röðum KR og var æfingu þeirra sem fyrirhuguð var í dag frestað vegna þess.
Liðið átti að sækja ÍA heim á sunnudaginn klukkan 17:00 en nú er ljóst að leikurinn fer ekki fram þá. Ekki hefur nýr leiktími verið ákveðinn en KR-ingar bíða niðurstöðu úr skimun alls síns leikmannahóps sökum smitsins sem greindist í dag.
Þónokkur smit hafa greinst í fótboltanum síðustu vikur en leikjum hefur verið frestað hjá Víkingi Ólafsvík, Vestra, Kórdrengjum og ÍBV í Lengjudeildinni vegna smita.
Þá var leik hjá Fylki í Pepsi Max-deild karla frestað fyrr í sumar vegna smits innan þeirra raða.
KR vann 1-0 sigur á HK í Kórnum í síðustu umferð á meðan ÍA tapaði naumlega fyrir Breiðabliki 2-1.
KR er í 5. sæti deildarinnar með 29 stig og eygir veika von um Evrópusæti. KA er stigi ofar og Breiðablik þremur stigum á undan KR en Blikar og KA eiga innbyrðis viðureign inni. Skagamenn berjast fyrir tilverurétti sínum í efstu deild en liðið situr á botni deildarinnar með tólf stig, fjórum frá öruggu sæti.