Fótbolti

Arnór Ingvi rekinn af velli á Gillette Stadium í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy McNamara þakkar Arnóri Ingva fyrir stoðsendinguna í fyrsta marki New England Revolution í nótt.
Tommy McNamara þakkar Arnóri Ingva fyrir stoðsendinguna í fyrsta marki New England Revolution í nótt. Getty/Fred Kfoury III

New England Revolution tókst að landa sigri í MLS-deildinni þrátt fyrir að vera manni færri í átján mínútur. Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason hafði fengið sitt annað gula spjald.

New England Revolution vann 3-2 sigur á DC United og er áfram með yfirburðarforystu í Austurdeild MLS-deildarinnar í fótbolta.

Leikið var á hinum fræga Gillette Stadium í Foxborough sem er auðvitað heimavöllur NFL-liðsins New England Patriots.

DC United komst 1-0 yfir á tíu mínútu en New England svaraði með þremur mörkum þar af einu þeirra eftir að Arnór Ingvi fékk sitt annað gula spjald á 72. mínútu.

Arnór Ingvi lagði upp jöfnunarmark Thomas McNamara á 49. mínútu, sem sjá má hér fyrir ofan, en þeir Tajon Buchanan og DeJuan Jones komu New England liðinu síðan í 3-1.

Arnór fékk fyrra gula spjaldið sitt fyrir mótmæli á 33. mínútu og það seinna fyrir brot á 72. mínútu.

DC United minnkaði muninn í eitt mark með mark á sjöttu mínútu í uppbótartíma.

Þetta var fimmta stoðsending Arnórs á tímabilinu í tuttugu leikjum en hann hefur skorað sjálfur tvö mörk. Þetta var jafnframt hans fyrsta rauða spjald í MLS-deildinni.

Guðmundur Þórarinsson kom inn á sem varamaður á 68. mínútu þegar New York City liðið tapaði 1-0 á útivelli á móti Philadelphia Union. Guðmundur var sendur inn á völlinn strax eftir að Philadelphia skoraði eina mark leiksins.

Róbert Orri Þhorkelsson var ekki í leikmannahópi Montréal sem gerði markalaust jafntefli við Cincinnati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×