Íslenski boltinn

Topplið Valsmanna með langflest gul spjöld í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fá mikið af stigum en þeir fá líka mikið af spjöldum.
Valsmenn fá mikið af stigum en þeir fá líka mikið af spjöldum. Vísir/Bára

Valsmenn hafa verið duglegir að ná sér í stig í Pepsi Max deild karla í sumar en þeir hafa líka verið duglegir að ná sér í gul spjöld.

Ekkert lið í deildinni hefur fengið fleiri gul spjöld en Hlíðaendaliðið í sumar og í raun eru Valsmenn í nokkrum sérflokki.

Valur hefur fengið alls 46 gul spjöld í 17 leikjum eða 2,7 að meðaltali í leik. Það eru sex fleiri gul spjöld en næsta lið sem er Fylkir. Víkingur og KR eru síðan bæði með 39 gul eða einu spjaldi færra en Árbæjarliðið.

Það eru tveir leikmenn Valsmenn sem hafa verið einstaklega duglegir að safna gulum spjöldum í sumar en það eru miðjumaðurinn Birkir Heimisson og miðvörðurinn Rasmus Christiansen. Báðir hafa þeir fengið sjö gul spjöld sem er það mesta hjá öllum leikmönnum Pepsi Max deildarinnar til þess í sumar.

  • Flest gul spjöld í Pepsi Max deild karla í fótbolta til þessa:
  • 1. Valur 46
  • 2. Fylkir 40
  • 3. Víkingur 39
  • 3. KR 39
  • 5. ÍA 37
  • 6. HK 36
  • 7. Stjarnan 33
  • 8. FH 32
  • 9. Keflavík 30
  • 9. KA 30
  • 11. Breiðablik 29
  • 12. Leiknir 25

Næstir á eftir þeim eru KR-ingarnir Grétar Snær Gunnarsson og Kjartan Henry Finnbogason sem og FH-ingurinn Guðmann Þórisson sem allir hafa fengið sex gul sjöld í deildinni í sumar.

Valsmenn voru í öðru sæti yfir flest gul spjöld í fyrra en þeir fengu þá 48 gul spjöld. Blikar voru með flest gul spjöld í fyrra en hafa tekið sig mikið á milli tímabila.

Valsliðið er þó ekki með flest refsistig í Pepsi Max deild karla í sumar því Valsmenn hafa fengið aðeins eitt rautt spjald. Rauðu spjöld hjá Skagamönnum, sem eru fjögur talsins, skila liðinu flestum refsistigum af öllum liðum deildarinnar.

Leiknir er aftur á móti það lið sem hefur fengið fæst gul spjöld í sumar eða 25. Það er fjórum spjöldum færra en Blikar og fimm færri en Keflavík. Leiknismenn hafa fengið eitt rautt spjald en bæði Blikar og Keflvíkingar hafa ekki séð rautt í Pepsi Max deildinni í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×