Umfjöllun og viðtöl: Þróttur R. - Þór/KA 1-0 | Þróttarar sigruðu í kaflaskiptum leik

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Þróttur tekur á móti Þór/KA.
Þróttur tekur á móti Þór/KA. Vísir/Hulda Margrét

Þróttur og KA/Þór mættust í 15. umferð Pepsi Max deildar kvenna á Eimskipsvellinum í kvöld. Kaflaskiptur leikur þar sem bæði lið skiptust á að taka frumkvæði. Þróttur kom sér yfir um miðbik seinni hálfleiks og lokatölur því 1-0.

Þróttarar byrjuðu leikinn af miklum krafti. Pressuðu vel og voru hársbreidd frá því að koma sér yfir á fyrstu 10-15 mínútum leiksins, það vantaði bara herslumuninn að koma boltanum inn í netið. 

Næstu mínúturnar tók við kafli þar sem að KA/Þór voru orðnar hættulegar og var það Shaina Faiena fremst í flokki í að koma sér í færi og keyra í hraðar sóknir en Þróttarar hreinsuðu vel. 

Þannig var leikurinn allan fyrri hálfleikinn, mjög kaflaskiptur þar sem liðin skiptust á að taka frumkvæði og keyra upp völlinn. Ágætis sóknir en ekkert varð úr færunum í fyrri hálfleiknum og staðan því 0-0 þegar gengið var til klefa.

Seinni hálfleikurinn var svipaður og sá fyrri. 

Það dró hinsvegar til tíðinda um miðbik seinni hálfleiks þegar að Dani Rhodes kom á ferðinni upp kantinn, ein á móti markmanni og skorar. Þróttarar komnar 1-0 yfir. 

Meira gerðist ekki í þessum leik og unnu Þróttarar 1-0. 

Afhverju vann Þróttur leikinn?

Þær settu tóninn í byrjun leiksins. Þá voru þær hársbreidd frá því að koma boltanum í netið og voru stöðugt að pressa. Þrátt fyrir mjög kaflaskiptan leik þá voru þær að pressa vel og varnarleikurinn góður þar sem þær voru duglegar að hreinsa boltann í burtu og Íris að verja vel. 

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá liði Þróttar var Andrea Rut Bjarnadóttir gríðarlega góð. Átti nokkrar marktilraunir og var fljót að keyra upp völlinn. Dani Rhodes skoraði eina mark leiksins og var mjög öflug. Íris Dögg Gunnarsdóttir náði að klukka allt sem kom að markinu og hélt hreinu í kvöld. 

Hjá KA/Þór voru það Colleen Kennedy og Shaina Faiena Ashouri sem voru að ógna hvað mest en það vantaði herslumuninn að koma boltanum í netið. 

Hvað gekk illa?

Það gekk illa fyrir KA/Þór að koma boltanum í netið. Oft á tíðum voru þær komnar í ágætis færi og spiluðu boltanum vel en boltinn fór ekki í netið. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga Fylki í næsta leik. Þróttur sækir Fylki heim í 16. umferð Pepsi Max deildar kvenna, mánudaginn 30. ágúst kl 19:15 

Þór/KA sækir einnig Fylki heim en það er í 17. umferð, því þær eru búnar að leika sinn leik í 16. umferð og fer leikurinn fram laugardaginn 4. september kl 14:00.

Perry John: Ég er vonsvikinn

Perry John, aðstoðarþjálfari KA/Þórs, var svekktur eftir tap á móti Þrótti í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. 

„Ég er vonsvikinn. Mér fannst við spila vel og við gerðum það. Það var góð orka í liðinu og við vorum að fá ágætis tækifæri sem við náðum ekki að nýta fyrir framan markið. Á öðrum degi hefði þetta mögulega getað endað öðruvísi,“ sagði Perry eftir leikinn. 

Aðspurður hvernig leikurinn var lagður upp sagði Perry að aðalatriðið hefði verið að pressa. 

„Planið var að pressa og komast eins hátt upp völlinn og við gátum. Reyna að vinna boltann og stoppa þær af því þær eru lið sem spilar boltanum og við ætluðum að reyna stoppa það og vinna boltann til baka.“

Næsti leikur er við Fylki, laugardaginn 4. september. Mesta áherslan fyrir þann leik er að koma boltanum í netið. 

„Mig langar bara að sjá boltann í netinu. Ef við getum unnið boltann í pressu og skorað þá verð ég mjög sáttur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira