Enski boltinn

Liver­pool gefur Salah ekki leyfi til að spila næstu lands­leiki Egypta­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mo Salah hefur byrjað tímabilið á Englandi með látum.
Mo Salah hefur byrjað tímabilið á Englandi með látum. AP photo/Rui Vieira

Egyptaland verður án stjörnuleikmanns síns Mohamed Salah er liðið mætir Angóla og Gabon í undankeppni HM 2022 í upphafi næsta mánaðar. Liverpool leyfir leikmanninum ekki að fara sökum þess að Salah þyrfti að fara í sóttkví við komuna aftur til Liverpool-borgar.

Egyptaland mætir Angóla á heimavelli í Kaíró þann 2. september og Gabon á útivelli þremur dögum síðar. Báðir leikir eru hluti af undankeppni HM 2022 sem fram fer í Katar. Egyptaland hefur undanfarin ár verið með nokkuð sterkt lið en verður án stjörnu leikmannsins Mo Salah í þessum leikjum.

Egyptaland er eitt sex landa sem er rautt á ferðalista Bretlands. Það þýðir að Salah þyrfti að fara í 10 daga sóttkví við heimkomuna. Hann þyrfti að vera á sóttvarnarhóteli allan tímann og fara í skimun tvívegis á meðan þeim tíma stendur. Ásamt Egyptalandi eru Síle, Kólumbía, Mexíkó, Tyrkland og Úrúgvæ eru einnig rauð.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur gefið liðum leyfi til að banna leikmönnum að fara í landsleiki fari svo að þeir missi af leikjum með félagsliði vegna sóttkvíar. 

Liverpool hefur sent bréf á egypska knattspyrnusambandið þar sem það útskýrir stöðu sína. Enska félagið vonar að knattspyrnusmband Egyptalands skilji stöðu félagsins þar sem það hafi hagsmuni leikmannsins að leiðarljósi.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Liverpool tekið sömu ákvörðun varðandi aðra leikmenn sem gætu þurft að fara í sóttkví eftir landsleikjatörnina í upphafi næsta mánaðar. Samkvæmt frétt the Telegraph mun Manchester City gera slíkt hið sama. 

Brasilíska þríeykið Alisson Becker, Fabinho og Roberto Firmino fær því væntanlega ekki leyfi frá Liverpool til að spila við Síle þann 2. september. Sömu sögu er svo að segja af Ederson og Gabriel Jesus hjá City.

Knattspyrnusamband Brasilíu mun eflaust setja sig upp á móti þessu enda um að ræða stór nöfn í þeirra liði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×