Auðvelt hjá City gegn arfaslöku Arsenal-liði

Valur Páll Eiríksson skrifar
City-menn voru í litlum vandræðum í dag.
City-menn voru í litlum vandræðum í dag. Shaun Botterill/Getty Images

Arsenal hefur ekki byrjað mótið vel og var liðið án stiga eftir töp fyrir Brentford og Chelsea fyrir heimsókn dagsins á Etihad-völlinn í Manchester.

Ljóst var frá upphafi að vandræðagangur liðsins væri ekki á enda. Slappur varnarleikur leyfði Þjóðverjanum Ilkay Gundogan að koma City yfir eftir stoðsendingu frá Brasilíumanninum Gabriel Jesus. Aðeins fimm mínútum síðar tvöfaldaði Ferran Torres svo forystu City.

Til að bæta gráu ofan á svart fékk Granit Xhaka, fyrirliði Arsenal, að líta beint rautt spjald fyrir brot á 35. mínútu en það er í fjórða sinn sem hann fær reisupassann sem leikmaður liðsins. Átta mínútum síðar skoraði Gabriel Jesus þriðja mark City og voru tíu Arsenal-menn 3-0 undir í hálfleik.

Fyrirliðanum Granit Xhaka var vísað af velli í dag.Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Aðeins átta mínútum eftir að síðari hálfleikur var flautaður á skoraði Spánverjinn Rodri fjórða mark Manchester-liðsins með fínu skoti utan teigs.

City stýrði ferðinni algjörlega eftir fjórða markið en gekk illa að bæta við þrátt fyrir fjölda fínna tækifæra. Það var þó loks á 83. mínútu sem Torres skoraði sitt annað mark til að gulltryggja 5-0 sigur City.

Manchester City er með sex stig eftir þrjá leiki og er á toppnum vegna markatölu. West Ham United, Chelsea, Liverpool, Brighton og Tottenham eru öll einnig með sex stig en eiga leik inni.

Arsenal var aldrei líklegt til árangurs í dag. Liðið var aðeins 19% með boltann í leiknum og átti ekki marktilraun sem hitti rammann. Liðið leitar enn sinna fyrstu stiga í deildinni og eiga enn eftir að skora mark. Liðið er á botni deildarinnar með markatöluna 0-9.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira