Umdeilt sigurmark þegar Man Utd lagði Úlfana að velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurmarki dagsins fagnað.
Sigurmarki dagsins fagnað. vísir/Getty

Úlfarnir eru enn í leit að sínu fyrsta marki á leiktíðinni og biðu lægri hlut fyrir Manchester United í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Manchester United tefldi þeim Jadon Sancho og Raphael Varane fram í byrjunarliði sínu í fyrsta sinn en þessar stórstjörnur gengu í raðir félagsins í sumar.

Það var þó enginn glæsibragur yfir leik gestanna, þá sérstaklega í upphafi leiks. Brasilíski miðjumaðurinn Fred var sérstaklega mistækur og gaf heimamönnum tvö úrvals tækifæri á fyrstu sex mínútum leiksins. Hvorugt þeirra tókst þeim að nýta en Aaron Wan-Bissaka bjargaði glæsilega á marklínu frá Trincao í seinna færinu.

Heimamenn fengu fleiri tækifæri til að skora í leiknum en eina mark leiksins gerði hins vegar ungstirnið í liði gestanna, Mason Greenwood.

Markið kom á 80.mínútu og voru liðsmenn Wolves afar ósáttir við Mike Dean, dómara leiksins. Vildu þeir meina að Paul Pogba hefði brotið gróflega á Ruben Neves í aðdraganda marksins. Þó atvikið hafi verið skoðað í VAR var ekkert aðhafst og markið því látið standa.

Heimamönnum tókst ekki að skora, frekar en í fyrri tveimur leikjum sínum á tímabilinu og torsóttur 0-1 sigur Man Utd staðreynd.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira