„Sala á notendabúnaði er vaxandi þáttur í rekstri Origo og hefur félagið fullan hug á því að efla þá starfsemi enn frekar með sölu á slíkum búnaði til einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. Eftirspurn eftir Apple vörum er í örum vexti hér á landi og með kaupum í Eldhafi teljum við okkur geta mætt fjölbreyttum þörfum ólíkra viðskiptavina,“ segir Gunnar Zoëga, framkvæmdastjóri Notendalausna hjá Origo, í tilkynningu.
Guðmundur Ómarsson, framkvæmdastjóri og eigandi Eldhafs, segir að með samrunanum verði hægt að taka næsta skref í vexti Eldhafs. Þá verði hægt að samnýta þekkingu og reynslu beggja fyrirtækja. Vel hafi gengið að selja Apple-vörur undanfarin misseri.
„Við sjáum mikil sóknarfæri í sölu á Apple vörum til skóla, stofnana og fyrirtækja til að styðja við viðskiptavini Origo og Eldhafs,“ segir Guðmundur í tilkynningu. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.