Fótbolti

Guðmundur hrósaði sigri gegn Arnóri Ingva í New York

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson er fastamaður í liði New York City.
Guðmundur Þórarinsson er fastamaður í liði New York City. getty/Rich Graessle

Guðmundur Þórarinsson hafði betur gegn Arnóri Ingva Traustasyni þegar New York City sigraði New England Revoluti­on, 2-0, í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Arg­entínumaður­inn Valent­in Casta­nel­los skoraði bæði mörk New York sem er í 4. sæti Austurdeildarinnar. 

Þrátt fyrir tapið er New England langefst í Austurdeildinni og með fjórtán stiga forskot á næstu lið, Orlando City og Nashville. Þau eiga þó bæði tvo leiki til góða.

Guðmundur og Arnór Ingvi voru báðir í byrjunarliðinu í leiknum. Sá fyrrnefndi lék í 87 mínútur en sá síðarnefndi 57 mínútur.

Guðmundur hefur leikið sautján leiki fyrir New York á tímabilinu og skorað eitt mark. Hann er á sínu öðru ári hjá félaginu.

Arnór Ingvi hefur skorað tvö mörk og lagt upp fimm í 21 leik fyrir New England á tímabilinu.

Guðmundur heldur nú hingað til lands en hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM 2022 í upphafi næsta mánaðar. Arnór Ingvi hlaut hins vegar ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Arnars Þórs Viðarssonar að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×