Landssamband hestamanna er að fara af stað með metnaðarfullt og spennandi verkefni, sem talið er að eigi eftir að geta borið hróður íslenska hestsins jafnvel enn lengra en nú er, og þá með áherslu á þol, kjark, kraft og íslenska náttúru. Um er að ræða þolkappreið þvert yfir landið, eða frá frá Skagafirði á Þingvelli í anda mongólíukappreiðanna þar sem hver knapi ríður 70 kílómetra á dag í óbyggðum Íslands. Fjögurra daga prufukeppni lauk í gær með fjórum liðum, Íslendingum og útlendingum.
Hermann Árnason var einn af þeim, sem keppti.
„Það gekk mjög vel, þetta var alveg ótrúlega vel heppnað myndi ég segja og mjög góð lið öllsömul en þau voru frá Eldhestum, Íslandshestum, Riding Iceland Saltvík og ég var nokkurskonar heiðursfélagi,“ segir Hermann.
Hvert lið var með þrjá hesta og einn keppanda en notaðir eru tveir hestar yfir daginn og kílómetrunum 70 á hverjum degi skipti á tvo hesta. Dýralæknir var með í för og fylgdist mjög vel með hestunum.
Var ekki gaman að taka þátt í þessu?
„Jú, gríðarlega gaman, þetta voru náttúrlega hörku keppendur.“
Var bara riðið stökk allan tíman eða?
„Nei, nei, maður getur sagt að drýgst sé að fara góðan og drjúgan ferðahraða. Við vorum yfirleitt að ríða 35 kílómetra í einni beitt, auðvitað mega menn stoppa og teyma, vatna og allt svoleiðis. Menn verða þó að fara ríðandi af stað og koma ríðandi í mark,“ segir Hermann.
Hermann segist vonast til að Landssamband hestamanna geri þolreiðakeppni á árlegum viðburðum hér eftir með nokkrum liðum til að vekja enn frekari athygli á hversu megnugur íslenski hesturinn er.
Úrslit keppninnar voru þessi:
Í fyrsta sæti var Iðunn Bjarnadóttir á 18 klst. og 40 mínútum, en hún keppti fyrir lið Riding Iceland Saltvík.
Í öðru sæti varð Annie Whelan frá Bandaríkjunum á 18 klst. og 52 mínútum, en hún keppti fyrir lið Íslandshesta.
Í þriðja sæti varð Hermann Árnason á 19 klst. og 3 mínútum, en hann keppti fyrir lið Hermanns hestaferða.
Fjórði varð Musse Hasselvall frá Svíþjóð á 19 klst. og 4 mínútum en hann keppti fyrir lið Eldhesta.