Íslenski boltinn

Er svo mikil­vægt fyrir þetta Eyjalið að sýna Eyja­hjarta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eyjahjartað skilaði sínu gegn Stjörnunni.
Eyjahjartað skilaði sínu gegn Stjörnunni. Vísir/Bára Dröfn

ÍBV vann góðan 3-1 sigur á Stjörnunni í Pepsi Max deild kvenna í gær. Ian Jeffs, þjálfari liðsins, var mjög sáttur með sigurinn en hann var hvað ánægðastur með Eyjahjartað sem lið hans spilaði með. „Eyjahjartað“ var rædd í Pepsi Max Mörkunum að leik loknum.

„Við ræddum það aðeins með ÍBV liðið, þær voru alls ekki sannfærandi á móti Selfoss. Pirraðar aðeins en það er eins og þær hafi þétt raðirnar fyrir þennan leik og gert sér grein fyrir alvöru málsins,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi um frammistöðu Eyjastúlkna í 6-2 tapinu á Selfossi.

„Það lítur þannig út, þær hafa greinilega tekið góðan fund og farið aðeins yfir málin. Allt annað að sjá þetta lið. Eins og (Ian) Jeffs nefnir, það er svo mikilvægt fyrir þetta Eyjalið að sýna Eyjahjarta. Það eru góðir leikmenn þarna,“ sagði Mist Rúnarsdóttir og hélt svo áfram.

„Þetta er mjög ungt lið, það gleymist svolítið í þessu. Þetta er að ég held næstyngsta liðið í deildinni. Þær verða að halda í grunngildin og passa að Eyjahjartað sé til staðar, þá eru þær fínasta fótboltalið.“

Lilja Dögg Valþórsdóttir, og Mist, voru svo báðar sammála um það að ÍBV væri sloppið við falldrauginn en þegar tvær umferðir eru eftir er liðið sex stigum fyrir ofan Fylki sem situr í 9. sæti og með töluvert betri markatölu.

Klippa: PM Mörkin: Eyjahjartað

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×