Íslenski boltinn

Kórdrengir halda lífi í baráttunni um sæti í efstu deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kórdrengir halda enn í vonina um sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Kórdrengir halda enn í vonina um sæti í efstu deild á næsta tímabili. Vísir/Hulda Margrét

Nú rétt í þessu lauk tveimur leikjum í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Kórdrengir unnu mikilvægan 4-0 heimasigur gegn föllnum Víkingum frá Ólafsvík og halda því enn í vonina um sæti í efstu deild. Á sama tíma gerðu Afturelding og Vestri 2-2 jafntefli.

Pétur Bjarnason kom Vestra yfir gegn Aftureldingu eftir hálftíma leik, en Arnór Gauti Ragnarsson var búinn að jafna metin aðeins tveimur mínútum síðar.

Staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks, en á 65. mínútu fóru heimamenn í Aftureldingu í frábæra skyndisókn sem að Kári Steinn Hlífarsson batt endahnútinn á og kom Mosfellingum í 2-1.

Pétur Bjarnason var þí ekki hættur, en hann skoraði sitt annað mark og annað mark Vestra tæpum tíu mínútum fyrir leikslok og tryggði sínum mönnum 2-2 jafntefli.

Afturelding fer því í sjöunda sæti með 23 stig þegar að þrír leikir eru eftir. Vestri situr í því sjötta með 29 stig, en þeir hafa spilað einum leik minna en andstæðingar dagsins.

Leonard Sigurðsson kom Kórdrengjum yfir gegn Víkingum frá Ólafsvík strax á sjöundu mínútu, áður en Gunnlaugur Fannar Guðmundsson tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar.

Staðan því 2-0 eftir aðeins 15 mínútna leik, og þannig var hún líka þegar að flautað var til hálfleiks.

Það var svo ekki fyrr en þegar um fimm mínútur voru til leiksloka að Kórdrengir hrukku aftur í gang. Magnús Andri Ólafsson breytti stöðunni í 3-0, áður en Axel Freyr Harðarson gulltryggði 4-0 sigur.

 Kórdrengir eru því með 37 stig í þriðja sæti deildarinnar, aðeins einu stigi á eftir ÍBV sem situr í öðru sæti. Kórdrengir hafa þó spilar tveimur leikjum meira en Eyjamenn og þurfa því að treysta á önnur úrslit til að vinna sér inn sæti í Pepsi Max deildinn að ári.

Víkingur Ólafsvík er sem áður sagði fallið úr Lengjudeildinni. Þeir seitja í neðsta sæti með fimm stig þegar að þrír leikir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×