Innlent

Gat upp­götaðist á sjó­kví í Arnar­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Bíldudal í Arnarfirði.
Frá Bíldudal í Arnarfirði. Vísir/Vilhelm

Gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Haganes í Arnarfirði uppgötvaðist við neðansjávareftirlit síðastliðinn fimmtudag.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að viðgerð sé lokið, en gatið er sagt hafa verið á tveggja metra dýpi og tveir sinnum tveir metrar að stærð. Málið sé nú til meðferðar hjá stofnuninni.

120 þúsund laxar voru í umræddri kví með meðalþyngd 0,8 kíló. Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt 31. júlí síðastliðinn og var nótarpoki þá heill.

„Eftirlitsmaður Matvælastofnunar hefur skoðað aðstæður og viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til meðferðar hjá stofnuninni. Arnarlax lagði út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort strok hafi átt sér stað. Netanna var vitjað síðdegis á mánudag og þriðjudag. Á mánudag komu tveir fiskar í netin sem reyndust að öllum líkindum sjóbirtingar og á þriðjudag veiddist einn lax sem var rúm 2 kg. Fiskarnir verða sendir til Hafrannsóknastofnunar til greiningar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×