Fótbolti

„Þurfum að gera okkur grein fyrir hvar við erum staddir“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Þór á hliðarlínunni í leik gærkvöldsins.
Arnar Þór á hliðarlínunni í leik gærkvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Þór Viðarsson þjálfari íslenska landsliðsins sagði stöðuna á liðinu núna svipaða og fyrir tíu árum þegar sú kynslóð sem leiddi liðið á tvö stórmót var að hefja sinn landsliðsferil. Hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 0-2 tapið gegn Rúmeníu í gærkvöld.

„Við þurfum að líta einhver tíu ár til baka og skoða þegar U-21 liðið okkar, sem komst alla leið í  úrslitakeppni EM, er að byrja að spila saman. Í rauninni er nákvæmlega sama að gerast núna. Við vonum að þeir strákar sem eru að koma ungir inn núna geti tekið þau skref á sínum ferli sem okkar bestu leikmenn síðustu árin gerðu.“

„Þegar sú kynslóð byrjaði að spila saman þá komu ansi margir tapleikir í röð og í raun erum við þar núna. Það lið hafði líka 4-6 mjög reynda leikmenn sem voru að hjálpa til. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvar við erum staddir.“

Arnar sagðist þó líta björtum augum á framtíðina og sagðist hafa trú á því að liðið væri á réttri leið.

„Ég er eiginlega alveg pottþéttur á því þegar við skoðum hvernig liðið spilaði í kvöld (í gær), hvernig hugarfarið var og samstillingin að tapleikirnir þurfi ekki að vera svona margir áður en við byrjum að klífa næsta fjall.“

Arnar viðurkenndi að líklega væri möguleikinn á sæti á Heimsmeistaramótinu í Katar úr sögunni.

„Ef þú ferð að telja þau stig sem þú mátt tapa til þess að eiga möguleika á tveimur efstu sætunum þá held ég að við séum búnir að ná hámarkinu sem þýðir að við þurfum að vinna rest.“

„Svo getur þetta spilast alls konar en núna er þetta súrt og staðan í riðlinum ekki góð. Við höfum séð skrýtin úrslit í riðlinum en undir eðlilegum kringumstæðum getum við ekki tapað fleiri stigum.“


Tengdar fréttir

„Hannes var hundfúll og það er bara jákvætt“

Arnar Þór Viðarsson segir að valið á Rúnari Alex Rúnarssyni fram yfir Hannes Þór Halldórsson hafi tengst því hvernig hann vildi sjá íslenska liðið spila gegn Rúmeníu í kvöld. Hann segir að Hannes hafi að sjálfsögðu viljað byrja leikinn.

Einkunnir Íslands: Birkir Már skástur í gjörbreyttu liði

Mikið breytt lið Íslands frá fyrstu leikjunum í undankeppni HM karla í fótbolta náði ekki að koma í veg fyrir 2-0 tap gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli. Birkir Már Sævarsson stóð upp úr í einkunnagjöf Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×