Enski boltinn

Salah vill verða launahæsti leikmaður Liverpool frá upphafi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mo Salah vill fá væna launahækkun ef hann skrifar undir nýjan samning við Liverpool.
Mo Salah vill fá væna launahækkun ef hann skrifar undir nýjan samning við Liverpool. AP photo/Rui Vieira

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah vill fá 500 þúsund pund í vikulaun ef hann skrifar undir nýjan samning við Liverpool, en það myndi gera hann að launahæsta leikmanni félagsins frá upphafi.

Frá þessu er greint á vef Daily Mirror, en þessi 29 ára sóknarmaður er nú þegar einn launahæsti leikmaður liðsins. Hann þénar nú í kringum 200 þúsund pund á viku.

Hann á nú minna en tvö ár eftir af samningi sínum og Jürgen Klopp, stjóri liðsins, vill ólmur halda Salah innan sinna raða og halda þannig stórliðum á borð við Real Madrid og Paris Saint-Germain frá.

Klopp hefur nú þegar tryggt sér áframhaldandi þjónustu nokkurra lykilmanna. Virgil van Dijk, markvörðurinn Alisson og fyrirliðinn Jordan Henderson skrifuðu allir undir nýjan samning á dögunum.

Enginn þeirra hefur þó verið jafn metnaðarfullur og Salah þegar kemur að launakröfum, en 500 þúsund pund myndi gera hann að launahæsta leikmanni í sögu félagsins.

Margt bendir til að Liverpool muni bjóða sínum mesta markaskorara dágóða launahækkun, en að það verði þó langt frá því að koma algjörlega til móts við kröfur Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×