Íslenski boltinn

Þróttur heldur í vonina um að halda sæti sínu í Lengjudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þróttur R. heldur í vonina um að halda sæti sínu í Lengjudeild karla.
Þróttur R. heldur í vonina um að halda sæti sínu í Lengjudeild karla. Twitter/Þróttur

Þróttur R. vann í dag 5-2 stórsigur á föllnum Víkingum frá Ólafsvík í Lengjudeild karla. Sigurinn þýðir að liðið á enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni þegar að tvær umferðir eru eftir.

Samuel George Ford kom Þrótturum yfir strax á þriðju mínútu en Harley Willard var búinn að jafna metin fyrir gestina aðeins fjórum mínútum síðar.

Simon Dominguez Colina kom Víkingum yfir eftir rúmlega hálftíma leik eftir stoðsendingu frá Bjarti Bjama Barkarsyni og staðan var því 2-1, Víkingum í vil þegar að flautað var til hálfleiks.

Sam Hewson jafnaði metin fyrir Þróttara af vítapunktinum eftir klukkutíma leik og þegar að um tíu mínútur voru til leiksloka kom Róbert Hauksson þeim í 3-2.

Kairo Edwards-John og Daði Bergsson gerðu síðan út um leikinn á lokamínútum leiksins og tryggðu Þrótturum 5-2 sigur.

Samuel George Ford nældi sér í sitt seinna gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma, en það kom ekki að sök fyrir Þróttara.

Þróttur er nú með 14 stig í næst neðsta sæti þegar að tveir leikir eru eftir. Liðið þarf því að vinna báða leikina sem eftir eru og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að halda sér í Lengjudeildinni á markatölu.

Víkingur Ólafsvík situr sem fastast á botninum með fimm stig og eru fallnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×