Handbolti

Viktor Gísli til eins sterkasta liðs Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur leikið með íslenska landsliðinu síðan 2019.
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur leikið með íslenska landsliðinu síðan 2019. vísir/vilhelm

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins, hefur samið við Nantes, eitt sterkasta lið Evrópu.

Viktor Gísli gengur í raðir Nantes næsta sumar líkt og króatíski markvörðurinn Ivan Pesic. Þeir taka stöður Emils Nielsen, sem fer til Barcelona, og Mickaëls Robin, sem leggur skóna á hilluna eftir tímabilið.

Viktor Gísli, sem er 21 árs, kemur til Nantes frá GOG í Danmörku þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö ár. Hinn 32 ára Pesic kemur frá Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi. Hann er þrautreyndur og hefur leikið með króatíska landsliðinu á nokkrum stórmótum.

Á síðasta tímabili endaði Nantes í 3. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið tapaði fyrir Barcelona. Nantes komst í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir þremur árum.

Viktor Gísli er uppalinn hjá Fram og sló í gegn með liðinu tímabilið 2016-17. Fram komst þá í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn og bikarúrslit. Hann lék með íslenska landsliðinu á EM 2020 og HM 2021 og var í U-19 ára landsliðinu sem vann silfur á EM 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×