Sport

Þægilegur sigur Bayern á Leipzig

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Manuel Neuer stóð í marki Bayern Munchen
Manuel Neuer stóð í marki Bayern Munchen EPA-EFE/FILIP SINGER

RB Leipzig fékk stórlið Bayern Munchen í heimsókn í þýsku Bundesligunni í kvöld

Leipzig hafði verið í einhverjum vandræðum fyrir þennan leik og höfðu einungis náð í fjögur stig í fyrstu leikjum tímabilsins. Bayern hafði í þessum sömu þremur leikjum sótt sjö stig. Fyrirfram var þó búist við nokkuð öruggum sigri Bæjara. Það kom líka á daginn en Bayern Munchen vann 1-4 útisigur í leik sem varð aldrei spennandi.

Það var Robert Lewandowski sem skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu eftir tólf mínútna leik. Leikmaður Leipzig handlék knöttinn klaufalega inni í teig og vítaspyrna réttilega dæmd. Lewandowski, sem margir gætu kallað besta framherja heims, átti ekki í miklum vandræðum með að skora og sendi markvörðinn, Peter Gulasci, í vitlaust horn.

Á 47. mínútu skoraði Jamal Musiala með fínu skoti af stuttu færi eftir ágætan undirbúning frá Alphonso Davies. Það var svo Musiala sem lagði upp næsta mark fyrir Leroy Sane. Frábært spil sem endaði með því að Sane þurfti næstum ekkert að hafa fyrir því að moka boltanum yfir línuna.

Konrad Laimer lagaði stöðuna með stórglæsilegu marki á 58. mínútu en nær komust heimamenn ekki. Eric Choupo-Moting skoraði svo fjórða mark Bayern Munchen í uppbótartíma.

Bayern komið með tíu stig í öðru sæti deildarinnar á eftir Wolfsburg sem er með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×