Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, sem er með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði, leiðir okkur í allan sannleikann um mikilvægi iðjuleysis.
Og skýrir það út fyrir okkur hvers vegna iðjuleysi er stórlega vanmetið!
Æðsta listin að gera ekkert
Ingrid segir að þegar að við erum önnum kafin sé heilinn okkar ekkert endilega mjög virkur.
Þegar við tökum aftur á móti hlé og gerum eitthvað sem virðist hafa minni tilgang eins og að spila vist, horfa á The Crown eða moka snjó fer heilinn á fullt í að leysa vandamál,“
segir Ingrid og bætir við: „Okkur finnst við vera að taka andlegt hlé en sá hluti heilans sem leysir vandamál hvílist aldrei og er virkastur þegar okkur dagdreymir.“
Þetta þýðir í raun að til þess að vera sem best í því að leysa úr málum eða fá nýjar hugmyndir, þurfum við að vera dugleg í því að taka okkur reglulega hlé.
Ingrid bendir á rannsóknir máli sínu til stuðnings:
„Niðurstöður rannsókna í taugavísindum benda til þess að við séum meira skapandi þegar við sinnum tómstundum og slökum á en ef við erum stöðugt upptekin og önnum kafin. Það að gera ekki neitt er í raun æðsta listin. Einmitt þegar við höfum ekkert að gera er allt mögulegt. Það býr mikill kraftur í þögninni.“
Oft aldagömul ráð sem virka best
Ingrid segir að við séum búin að vera háð klukkum allt frá iðnbyltingunni en í rauninni hafi klukkan gert okkur að þrælum tímans.
„Við höfum verið hvött til að nýta hverja einustu mínútu og láta tímann ekki fara til spillis. Markmiðið hefur verið að auka framleiðni og afköst,“ segir Ingrid.
Svo langt höfum við gengið í að skipuleggja okkur og nýta tímann vel, að hver einasta stund sem við erum vakandi er skipulögð í þaula.
Jafnvel sumarfríið.
„Við styðjumst við gátlista sem hjálpa okkur við að forgangsraða í hvað tíminn okkar fer. Við setjum okkur markmið um að lesa eins margar bækur og við getum. Jafnvel skólabörn eru með stundaskrá sem heldur utan um kennslustundir, íþróttir og tónlistarskólann,“ segir Ingrid.

En hvernig förum við að því að þjálfa okkur í iðjuleysi?
Ein mesta áskorunin er að sætta sig við að gera ekki neitt,“
segir Ingrid en bendir á hvernig aldagömul ráð eru oft þau ráð sem gagnast okkur best.
Dæmi:
Heimspekingurinn Aristóteles var uppi árin 384-322 fyrir Krist. Aristóteles áleit að tómstundir væru hornsteinn vitsmunalegrar uppljómunar.
Hann trúði því að sannar tómstundir fælu í sér ánægju, hamingju og blessað líf.
Aristóteles trúði því líka að þeir sem þyrftu að vinna öllum stundum, hefðu ekki færi á að upplifa þessar ánægjulegar tilfinningar.
Ingrid bendir fólki því sérstaklega á að nýta tómstundir sína og frítíma.
Að hafa tíma er þó ekkert endilega höfuðmálið.
„Það sem skiptir mestu máli er reyndar ekki svo mikið að hafa tíma til að sinna skapandi verkefnum heldur frekar viljinn til að gera ráð fyrir óskipulögðum tíma þar sem hugurinn getur fundið lausnir á hagnýtum, skapandi eða vitsmunalegum vandamálum.“
Aðalmálið að sögn Ingridar er að gefa heilanum hvíld þannig að hann geti framleitt nýjar hugmyndir og nýjungar.
Ein leiðin til að ná þessari hvíld er að draga sig í hlé frá samskiptum við aðra.
Einvera getur nefnilega haft jákvæð áhrif á sköpunargáfuna.
Að vera með öðru fólki er þó líka mikilvægt.
„Félagsleg samskipti gegna mikilvægu hlutverki í allri sköpun. Hugmyndir verða oft til þegar skapandi einstaklingar hittast og skiptast á skoðunum. Við erum jú félagsverur og skilum okkar besta árangri með aðstoð og hvatningu frá öðrum,“ segir Ingrid.
Staðir geta líka hjálpað okkur að virkja hugann, eins og kaffihús, veitingastaðir eða barir.
Eins staðir sem hafa þann tilgang að stefna fólki saman til þess að spjalla og mynda tengsl. Ingrid nefnir nokkra slíka staði sem dæmi:
Hugmyndaráðuneytið sem starfaði í nokkur ár eftir árið 2009. Þar hittust frumkvöðlar, hugsuðir og fagmenn á ólíkum sviðum á hópfundum, spjölluðu og mynduðu tengsl. Blábankinn á Þingeyri sem styður fólk sem vill skapa sjálfbær tækifæri fyrir þorpið og heiminn eða Hugvöllur sem stofnaður var í janúar á þessu ári með það að markmiði að tengja saman öflugt og reynslumikið fólk sem stendur á tímamótum.
„Staðir sem þessir veita innblástur, örva heilann og stuðla að alls kyns skapandi vinnu,“ segir Ingrid.
Að meta virðið sem felst í iðjuleysi er líka ágætis ábending um það hvernig samfélagið mætti endurskoða sum almenn viðhorf.
Dugnaður er dyggð í okkar samfélagi og það er lítið umburðarlyndi fyrir fólki sem sýnir litla virkni. Það breyti því þó ekki að iðjuleysi er beinlínis heilbrigt fyrir heilann,“
segir Ingrid.