Enski boltinn

Crouch um sigurmark Henderson í gær: Þetta var svo mikið eins og Gerrard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jordan Henderson fagnar sigurmarki sínu fyrir Liverpool í gær.
 Jordan Henderson fagnar sigurmarki sínu fyrir Liverpool í gær. EPA-EFE/Peter Powell

Peter Crouch líkti Jordan Henderson við Steven Gerrard eftir að núverandi fyrirliði Liverpool liðsins tryggði liði sínu 3-2 sigur á AC Milan í Meistaradeildinni á Anfield í gær.

Markið skoraði Henderson með skoti fyrir utan vítateig og svona mikilvæg mörk með langskotum var eitthvað sem Gerrard skilaði svo oft á úrslitastundum í leikjum liðsins á þeim sautján tímabilum sem hann lék með Liverpool.

„Þetta var svo mikið eins og Gerrard. Hvernig hann hallaði sér yfir boltann, náði kraftinum og skottækninni hárréttri. Þegar boltinn er á lofti þá er það mjög erfitt,“ sagði Peter Crouch á BT Sport.

Rio Ferdinand hrósaði Henderson líka. „Hann fer fyrir sínu liði, keyrir liðið áfram og veit hvenær menn þurfa stuðning og kemur með yfirvegun inn í liðið,“ sagði sagði Ferdinand.

Henderson tók við fyrirliðabandinu af Gerrard og hefur skilað leiðtogahlutverki sínu einstaklega vel. Menn hafa samt ekki verið að líkja mikið knattspyrnulegu hæfileikum hans við Gerrard fyrr en nú.

Peter Crouch þekkir vel til Gerrard enda spiluðu þeir saman í þrjú ár hjá Liverpool og svo einnig með enska landsliðinu þau fimm tímabil sem Crouch var inn í myndinni þar.

Steven Gerrard er þriðji leikjahæsti leikmaður Liverpool frá upphafi (710) en aðeins Ian Callaghan (857) og Jamie Carragher (710) léku fleiri leiki. Jordan Henderson er í 27. sæti með 396 leiki en var að gera nýjan samning og ætti því að geta bætt mörgum við þessa tölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×