Enski boltinn

Stálu bæði Meistara­deildar­gulli og EM-silfri Reece James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reece James fagnar hér með Meisataradeildarbikarinn og með gullið um hálsinn.
Reece James fagnar hér með Meisataradeildarbikarinn og með gullið um hálsinn. Getty/Manu Fernandez

Þetta var frábært sumar fyrir Chelsea manninn Reece James sem vann fyrst Meistaradeildina með Chelsea og fékk síðan silfur með enska landsliðinu á Evrópumótinu. Haustið ætlar ekki að vera eins gott.

Reece James var að spila með Chelsea á þriðjudagskvöldið þegar liðið hóf titilvörn sína í Meistaradeildinni með 1-0 sigur á Zenit frá Sankti Pétursborg í Rússlandi.

James sagði frá því á Instagram síðu sinni að á meðan leiknum stóð hafi þjófar brotist inn hjá honum og tekið með sér peningaskápinn.

Í þessum peningaskáp voru hvorki dýrmætir skartgripir eða miklir peningar heldur voru þarna bæði Meistaradeildargullið og EM-silfrið frá því í sumar sem og gullið sem James vann í Ofurbikarnum á dögunum.

James sýndi brot úr öryggismyndavél þar sem má sjá innbrotsþjófana ganga um eignina áður en þeir drógu peningaskápinn út í bíl. James biðlaði um leið til þeirra sem horfa á myndbandið hvort þeir þekkja til þessara manna.

„Ég biðla til allra stuðningsmanna Chelsea og enska landsliðsins til að hjálpa við að bera kennsl á þessi skítseiði sem munu aldrei geta sofið rótt vegna allra sönnunargagnanna sem eru til um glæp þeirra. Lögreglan, ráðgjafar mínir, Chelsea félagið sem og margir aðrir styðja við bakið á mér og við höfum góðar vísbendingar um hverjir glæpamennirnir eru. Við nálgumst þá,“ skrifaði Reece James á Instagram.

„Sem betur fer þá var enginn heima í innbrotinu og ég vil láta alla vita af því að það er allt í lagi með mig. Ég met mikils að hafa þennan vettvang til að segja frá ólukku minni og saman getum við náðu þessum einstaklingum og náð fram réttlætinu,“ skrifaði James.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×