ÍA fór úr fallsæti eftir 5-0 sigur á Fylki. Þetta var þriðji sigur ÍA í röð í öllum keppnum. Eftir 12. mínútna leik fékk Þórður Gunnar Hafþórsson að líta rauða spjaldið eftir að hafa fengið boltann í hendina. Steinar Þorsteinsson skoraði úr vítaspyrnunni.
Eftir að vera marki undir og manni færri átti Fylkir aldrei möguleika. ÍA gekk á lagið í seinni hálfleik og gerði fimm mörk í seinni hálfleik.
ÍA tók frumkvæði strax og átti Steinar Þorsteinsson skot sem Aron Snær Friðriksson varði snemma í leiknum.
Þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af leiknum dróg til tíðinda. Hornspyrna Gísla Laxdal myndaði mikinn usla inn í teig. Á endanum náði Hákon Ingi Jónsson skot af stuttu færi sem fór í hendina á Þórði Gunnari Hafþórssyni.
Sigurður Hjörtur Þrastarson var í engum vafa. Flautaði strax víti og rautt spjald. Steinar Þorsteinsson skoraði úr vítaspyrnunni og kom Skaganum yfir.
Rúnar Páll, þjálfari Fylkis, gerði tvöfalda breytingu eftir rauða spjald Þórðs. Ragnar Sigurðsson og Helgi Valur Daníelsson komu inn á fyrir Jordan Brown og Helga Val Daníelsson. Langt frá því að vera sóknarsinnuð skipting þrátt fyrir stöðuna í töflunni.
ÍA var marki yfir þegar haldið var til hálfleiks. Ásamt því að vera manni fleiri. Úrslit í leik Leiknis og Keflavíkur, gerði það að verkum að Fylkir var á botninum þegar þeir fóru inn í klefa í hálfleik.
Á 49. mínútu bætti ÍA við öðru marki. Sindri Snær Magnússon átti góða sendingu á Gísla Laxdal sem var við það að missa boltann aftur fyrir markið, en rétt náði að renna boltanum á Hákon Inga Jónsson sem skoraði gegn uppeldisfélagi sínu.
Síðasta korter leiksins gafst Fylkir upp. Á þessum kafla gerði ÍA þrjú mörk. Mörkin voru ekki bara vegna gæði heimamanna heldur líka vegna andleysi gestanna. Jón Gísli Eyland Gíslason gerði þriðja mark ÍA. Hann átti þar skot fyrir utan teig sem Aron Snær Friðriksson, markmaður Fylkis, átti að verja.
Á 84. mínútu skoraði Ingi Þór Sigurðsson. Ísak Snær Þorvaldsson átti góða sendingu frá vinstri kantinum. Ingi Þór þrumaði þá boltanum í fjærhornið. Rétt áður en flautað var til leiks loka slapp Eyþór Aron Wöhler í gegn, Ragnar Sigurðsson var afar klaufalegur í sinni nálgun sem Eyþór nýtti sér og renndi boltann framhjá Aroni Snæ.
Niðurstaðan ÍA vann leikinn 5-0.
Af hverju vann ÍA?
Bæði lið eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Aðeins eitt lið var þó tilbúið að sýna það í verki frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.
Seinni hálfleikur ÍA var vel útfærður. Þeir gáfu fá færi á sig og sóttu hratt upp báða kanta sem svínvirkaði.
Hverjir stóðu upp úr?
Ísak Snær Þorvaldsson átti afar góðan leik. Ísak Snær stýrði umferðinni á miðjunni og átti Fylkir enginn svör við hans leik.
Gísli Laxdal Unnarsson var einn af fjölmörgum leikmönnum ÍA sem spilaði vel. Gísli átti hornspyrnuna sem varð til þess að ÍA fékk vítaspyrnu. Gísli lagði síðan upp annað mark ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson notaði allar sínar skiptingar í leiknum. Þrír leikmenn sem komu inn á skoruðu mark sem er afar góð nýting.
Hvað gekk illa?
Fylkir missti mann af velli snemma leiks. Trú Fylkis á verkefninu fór í mínus eftir að þeir voru marki undir og manni færri. Seinni hálfleikur Fylkis var afleiddur frá öllum leikmönnum liðsins.
Hvað gerist næst?
Síðasta umferðin í Pepsi Max deildinni fer fram laugardaginn næsta og verða allir leikirnir spilaðir klukkan 14:00. Fylkir fer á Origo-völlinn og mætir Val. Á HS Orku-vellinum mætast Keflavík og ÍA.
Djair vildi ekki festa sig hjá okkur eftir ágúst mánuð
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var afar svekktur með fimm marka tap eftir leik.
„Maður segir lítið sem ekkert eftir svona tap. Þetta voru mikil vonbrigði. Skagamenn voru drullu góðir í dag. Við fengum færi til að jafna leikinn sem við nýttum ekki.“
„ÍA tók yfir leikinn í seinni hálfleik. Þeir refsuðu okkur með skyndisóknum sem voru vel útfærðar," sagði Rúnar Páll eftir leik.
Eftir að Fylkir missti mann af velli gerði Rúnar tvöfalda breytingu sem var afar varnarsinnuð.
„Verandi einum færri vildum við fá reynsluboltana Ragnar Sigurðsson og Helga Val Daníelsson í liðið. Við ætluðum að þétta raðirnar sem gekk ekki alveg að óskum.“
Það er lítið sjálfstraust í Fylkis liðinu þessa stundina og mátti sjá uppgjöf í seinni hálfleik
„Það er erfitt að vera á þeim stað sem Fylkir er og spila einum færri mest allan leikinn. Þó lið sé einum færri geta þau spilað ágætis fótbolta sem við gerðum ekki.“
Rúnar Páll var að lokum spurður út í mál Djair Parfitt-Williams sem hvarf úr félaginu.
„Það er með þessa bresku leikmenn, þeir vilja ekki festa sig í liði eftir ágúst mánuð. Ef þeir gera það komast þeir ekki að annars staðar fyrr en eftir áramót.“
Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.