Ótrúlegar lokamínútur tryggðu Man United stigin þrjú

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jesse Lingard skoraði sigurmark Manchester United í dag.
Jesse Lingard skoraði sigurmark Manchester United í dag. Chloe Knott - Danehouse/Getty Images

Manchester United vann 2-1 sigur þegar að liðið heimsótti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jesse Lingard kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið gegn sínum gömlu félögum, en það var David De Gea sem var hetja liðsins þegar hann varði vítaspyrnu í uppbótartíma.

United byrjaði leikinn af miklum krafti og þóttu líklegri til að skora. Það voru þó heimamenn í West Ham sem að tóku forystuna eftir hálftíma leik þegar að skot Said Benrahma endaði í netinu. Markið hafði smá heppnisstimpil með sér, en boltinn hafði viðkomu í Raphael Varane á leið sinni yfir línuna og breytti mikið um stefnu.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin fyrir gestina fimm mínútum síðar. Hann stýrði þá fyrirgjöf Bruno Fernandes á markið, Lukasz Fabianski varði, en Ronaldo tók frákastið og skoraði. 

Staðan var því 1-1 þegar að flautað var til hálfleiks. Þetta var fjórða mark Ronaldo síðan að hann gekk aftur í raðir United eftir tólf ára fjarveru, og það þriðja í ensku úrvalsdeildinni.

Seinni hálfleikur var svo svipaður þeim fyrri. United var meira með boltann og fengu nokkur álitleg færi til að taka forystuna.

Varamaðurinn Jesse Lingard kom Manchester United í 2-1 á seinustu mínútu venjulegs leiktíma þegar hann fékk boltann inni á teig og hnitmiðað skot hans fann fjærhornið. Á fjórðu mínútu uppbótartíma handlék Luke Shaw knöttinn innan vítateigs og Martin Atkinson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu eftir að hafa farið sjálfur í skjáinn góða.

Mark Noble kom inn á sem varamaður, sérstaklega til að taka vítaspyrnuna, en David De Gea sá við honum og niðurstaðan varð því 2-1 sigur United.

Manchester United situr nú í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. West Ham er í því áttunda með átta stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira