Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 1-4 | Akur­eyringar láta sig dreyma um Evrópu eftir stór­sigur á Hlíðar­enda

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
KA er komið upp í 3. sæti Pepsi Max deildarinnar.
KA er komið upp í 3. sæti Pepsi Max deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

KA vann ótrúlegan 4-1 útisigur á Íslandsmeisturum Vals í síðasta leik dagsins í Pepsi Max deild karla í fótbolta. KA menn láta sig dreyma um sæti í Evrópu að ári liðnu en til þess þurfa Akureyringar að treysta á að Víkingur vinni Mjólkurbikarinn svo 3. sæti deildarinnar veiti þátttöku í Evrópu.

Bæði lið mættu af krafti í þennan leik. KA-menn áttu fyrsta dauðafærið á 3. mínútu leiksins þegar Sebastiaan skaut boltanum í stöngina. 

Tæplega þremur mínútum seinna voru Valsmenn í sókn. Patrick Pedersen keyrir upp völlinn og kemur boltanum á Birki Má Sævarsson sem kemur sér framhjá varnarmönnum KA og rennir boltanum í markið. Staðan 1-0 fyrir heimamönnum. 

Við tók kafli þar sem liðin skiptust á að keyra upp völlinn. Þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum var Sebastiaan Brebels á ferðinni fyrir KA. Löng sókn þar sem Mark Gundelach kemur boltanum á Sebastiaan sem kemur boltanum í hægra hornið. Staðan 1-1. 

Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var staðan 1-1 þegar liðin gengu til klefa. 

Þegar rúmlega stundarfjóðungur var liðin af seinni hálfleik gera KA-menn breytingu á sínu liði. Inn á kemur Nökkvi Þeyr Þórisson. Hann var búin að vera í tæplega 2. mínútur inná þegar hann kemur KA yfir. Nökkvi fær boltann og kemur honum í fjærhornið. Staðan 2-1 fyrir KA. 

Um 10 mínútum seinna er Sebastiaan aftur á ferðinni fyrir KA. Fær sendinguna frá Mark Gundelach og kemur KA í 3-1. 

Valsarar gerðu í því að koma sér í góð færi og mæddi mikið á Steinþóri Má, markmanni KA á köflum í leiknum en boltinn rataði ekki inn. 

Þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka kórónuðu KA-menn sigurinn. Mark Gundelach með þriðju stoðsendinguna sína í leiknum. Kemur boltanum að þessu sinni á Elfar Árna sem kemur boltanum auðveldlega framhjá Hannesi Halldórssyni í marki Vals og kemur KA í 4-1. 

Völsurum tókst ekki að minnka munninn og sigruðu gestirnir 4-1. 

Afhverju vann KA?

Þeir náðu einfaldlega að nýta færin sín. Þeir voru að koma sér í góð færi. Mark var góður að finna leikmenn inn í teig sem kláruðu svo færin. Steinþór var geggjaður í markinu og var með mikilvægar vörslur. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KA voru það Elfar Árni, Nökkvi Þeyr og Sebastiaan sem skoruðu mörkin og tryggðu sigur en það hefði líklega ekki gerst ef það hefði ekki verið fyrir Mark Gundelach sem var með þrjár stoðsendingar í leiknum. Steinþór Már Auðunsson var mjög góður í marki KA og átti góðar vörslur þegar Valsarar voru komnir í dauðafæri. 

Hjá Val var það Birkir Már Sævarsson sem skoraði eina mark Vals. 

Hvað gekk illa?

Ef við byrjum á sóknarleik Vals þá áttu þeir kafla í leiknum þar sem þeir komu sér í ágætisfæri en enginn virtist ná að nýta sér það. Það virtist alltaf vanta menn á rétta staði og enduðu fyrirgjafir oft framhjá eða hjá KA sem náðu að hreinsa. 

Varnarleikurinn, það segir sig sjálft að þegar leikurinn endar 4-1 að þá er ábótavant í varnarleiknum. Allt of oft sem KA kom sér í opið færi og voru komnir einir á móti Hannesi Halldórs. 

Hvað gerist næst?

Síðasta umferð Pepsi Max deildar karla fer fram næsta laugardag kl 14.00. 

Valsmenn sækja Fylki heim í Árbæinn og á sama tíma fá KA, FH í heimsókn Norður. 

Okkur hefur vantað undanfarin ár að standa í stóru liðunum

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA, var sáttur með spilamennskuna í kvöld þegar KA sóttu þrjá punkta á móti Val. Lokatölur 4-1. 

„Ég er gríðarlega ánægður og ánægður að við skorum 4 mörk, við áttum meira að segja að skora fleiri. Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur og líka andlega að koma á útivöll á móti Val og vinna. Okkur hefur vantað undanfarin ár að standa í stóru liðunum þannig við erum gríðarlega ánægðir,“ sagði Hallgrímur í leikslok. 

Staðan var jöfn í hálfleik, 1-1. KA-menn mættu tvíelfdir í seinni hálfleikinn og skoruðu 3. mörk. 

„Við fórum yfir nokkra spilaliði sem mér fannst við ekki vera að gera nógu vel. Við fórum yfir hvernig við gætum opnað þá aðeins meira. Eins voru þeir að gera vel í fyrri hálfleik í sömu stöðu. Bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk.“

Nökkvi Þeyr kom inná í seinni hálfleik og skoraði rúmri mínútu seinna. 

„Hann er búinn að vera vaxandi núna og kominn með sjálfstraust og það er búið að ganga vel. Við erum gríðarlega ánægðir að sjá hann skora.“

Næsti leikur er við FH og vill Hallgrímur klára hann og tryggja sér þriðja sæti deildarinnar. 

„Þetta er síðasti leikur á tímabilinu á heimavelli. Við erum sterkir heima og við þurfum að fylgja þessu eftir og vinna. Við ætlum okkur að tryggja okkur þetta skemmtilega sæti, þriðja sæti, sem verður vonandi Evrópusæti.“


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira