Enski boltinn

Pep hótar að hætta með City

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola segist glaður stíga til hliðar ef stuðningsmenn félagsins eru ósáttir með hann.
Pep Guardiola segist glaður stíga til hliðar ef stuðningsmenn félagsins eru ósáttir með hann. Getty/Matt McNulty

Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur hótað því að segja upp starfi sínu hjá Manchester City eftir að framkvæmdastjóri stuðningsmannaklúbbs félagsins bað hann um að halda sig við þjálfun.

Pep hafði áður kallað eftir því að stuðningsmenn liðsins myndu fylla völlinn eftir að aðeins 38.000 manns mættu á Etihad-völlinn í 6-3 sigri City gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu, en völlurinn getur tekið við rúmlega 55.000 manns. 

Kevin Parker, framkvæmdastjóri stuðningsmannaklúbbsins brást við því með því að biðja stjórann vinsamlegast um að halda sig við þjálfun.

Fyrr í dag brást Pep við þessum ummælum Parker með því að segjast ekki ætla að biðjast afsökunar, og nú hefur hann sagt að hann sé tilbúinn að ganga út ef stuðningsmennirnir eru ósáttir við hann.

„Ástæðan fyrir því að ég er svona fúll og pirraður og sár er að þessi gæi þykist vita hvað ég er að segja, hvað ég þarf að gera og vita hverjar fyrirætlanir mínar voru,“ sagði Pep.

„En það er alveg sama. Ef fólk er ósátt við mig, þá mun ég fara, það er alveg klárt.“

Pep á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og hann segir að hann myndi glaður stíga til hliðar ef stuðningsmennirnir vilja losna við hann. Hann segist þó, rétt eins og stuðningsmennirnir, vilja það besta fyrir klúbbinn.

„Ef ég er ósáttur við stuðningsmennina, þá mun ég stíga til hliðar. Það er ekkert vandamál, en ég er einn af þeim. Frá fyrsta degi hef ég reynt að gera mitt besta hérna, það er alveg klárt. Ég vil auðvitað spila fyrir framan fullan Etihad-völl.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×