Innlent

Vinstri sveiflan snýst við

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin skara fram úr samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. 
Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin skara fram úr samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR.  Vísir/Vilhelm

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist nokkuð á undanfarinni viku samkvæmt nýrri könnun MMR fyrir Morgunblaðið og mbl.is sem kynnt var í dag. Fylgi flokksins hefur aukist um 1,5 prósent síðan á föstudaginn í síðustu viku en vinstri flokkar virðast hafa misst dampinn miðað við síðustu könnun MMR.

Samkvæmt könnuninni skara þrír flokkar fram úr öðrum: Sjálfstæðisflokkurinn með 21,8 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn með 14,3 prósenta fylgi og Samfylkingin með 13,9 prósenta fylgi. Samfylkingin er einn vinstri flokka sem bætir við sig fylgi miðað við könnun MMR frá því síðasta föstudag.

Fylgi Sósíalistaflokksins hefur lækkað nokkuð miðað við síðustu könnun, þar sem hann mældist með 8,6 prósenta fylgi. Fylgið er nú fallið niður í slétt 6 prósent. Vinstri græn hafa þá lækkað úr fyrri könnun. Flokkurinn mældist með 12,1 prósent fylgi í könnun síðasta föstudags en nú með 11 prósenta fylgi. Þá minnkar fylgi Pírata um 1,5 prósent, úr 11,8 prósentum niður í 10,3 prósent.

Bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn bæta við sig fylgi. Flokkur fólksins fer upp um 1,8 prósent og mælist nú með 7,3 prósenta fylgi. Miðflokkurinn hefur bætt dálítið við sig og mælist nú með 4,7 prósenta fylgi. Viðreisn lækkar nokkuð í könnunum og mælist nú með 10,1 prósent fylgi.

Könnunin var gerð í gær og í dag og tóku 909 afstöðu í könnuninni.


Tengdar fréttir

Skoðana­kannanir fyrir kosningar valdi fjár­festum á­hyggjum

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn virðist sveiflast í takt við skoðanakannanir í aðdraganda alþingiskosninga. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir fjárfesta hafa áhyggjur, hvort sem þær séu réttmætar eða ekki, af stjórnvöldum sem hyggi á þrálátri skuldasöfnun ríkissjóðs sem leiði til hækkunar stýrivaxta.

Mælan­leg vinstri sveifla viku fyrir kosningar

Greinilega sveiflu til vinstri má sjá í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR sem gerð var í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is. Eykst fylgi Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Sósíalista milli kannanna á sama tíma og fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar töluvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×